140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

lengd þingfundar.

[11:42]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Mörður Árnason vísaði í mig áðan, sagði að ég hefði fjallað um að forsætisráðherra hefði staðið hér, steytt hnefann og verið með hótanir. Vissulega er ekki hægt að taka orð hæstv. forsætisráðherra öðruvísi en svo að um hótanir sé að ræða þegar hún telur að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn standi öllu fyrir þrifum í þinginu. (Gripið fram í: Hvers vegna …?) Við heyrðum það á máli hv. þm. Þórs Saaris áðan að það er búið að ganga frá samningum við Hreyfinguna um að fylgja þessari ríkisstjórn. Þetta er fyrsta skiptið sem Hreyfingin greiðir atkvæði með lengd þingfundar til að koma sínum málefnum á dagskrá.

Við vitum að nú er mál nr. 16 á dagskránni varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarráðstillögurnar sem kostar 250 milljónir. Það er gjaldið sem Hreyfingin á að borga til stuðnings þessari verklausu ríkisstjórn. [Háreysti í þingsal.] (Gripið fram í: 80 …)

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra er verkstjóri hér. (Forseti hringir.) Hæstv. forsætisráðherra á að forgangsraða svo við getum unnið þessi mál eins og Alþingi sæmir.