140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

kreppa krónunnar.

[11:44]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir að samþykkja umræðu um kreppu krónunnar, kreppu sem birtist í gjaldeyrishöftum sem koma eiga í veg fyrir að 1.000 milljarðar, eða snjóhengjan svokallaða, fari út úr landinu og gengi krónunnar hrynji. Snjóhengjan mun halda áfram að vaxa þar sem nú er ekki lengur leyfilegt að kaupa gjaldeyri til að senda verðbætur á höfuðstól hennar úr landi, auk þess er ekki búið að ljúka útgreiðslum úr þrotabúum gömlu bankanna.

Þrjár lausnir hafa komið fram á snjóhengjuvandanum: Í fyrsta lagi harðindaleiðin, þ.e. með gengishruni krónunnar, í öðru lagi skuldsetningarleiðin, með upptöku evru og láni hjá Seðlabanka Evrópu eða hjá snjóhengjueigendum sjálfum með útgáfu ríkisskuldabréfs í erlendum gjaldmiðlum, og í þriðja lagi skiptigengisleiðin, sem gengur út að skrifa niður froðueignir við upptöku nýkrónu.

Einkaskuldum, þ.e. snjóhengjunni, verður komið yfir á almenning ef við förum harðindaleiðina eða skuldsetningarleiðina. Gömlu bankarnir bjuggu til aflandskrónurnar að hluta með peningaprentun og vogunarsjóðir keyptu eignir kröfuhafa gömlu bankanna á árunum 2008 og 2009 á brunaútsölu. Þessi peningaprentun og afslátturinn af eignum kröfuhafanna eru froðueignir. Hrapið í lífskjörum almennings verður svo til strax ef við förum harðindaleiðina en dreifist yfir fleiri ár ef við förum skuldsetningarleiðina. Markmiðið með skiptigengisleiðinni er að skrifa niður froðueignir sem engin greiðslugeta er fyrir til að verja kjör almennings og koma í veg fyrir landflótta, ekki síst ungs fólks.

Seðlabankinn hefur innleitt áætlun um afnám gjaldeyrishafta sem felur í sér gjaldeyrisútboð. Markmiðið er að minnka snjóhengjuna og undirbúa upptöku evrunnar. Nú hefur komið í ljós að lítill áhugi er á þessum gjaldeyrisútboðum. Það er því hætta á að gjaldeyrishöftin muni vara til eilífðar.

Í nýlegri skýrslu hæstv. utanríkisráðherra er fullyrt að krónan komist í skjól með stuðningi Evrópska seðlabankans eftir inngöngu í ESB. Ekki er hægt að skilja orð ráðherrans öðruvísi en svo að taka eigi lán hjá Evrópska seðlabankanum fyrir snjóhengjunni. Það stemmir ekki við svonefnda framvinduskýrslu um aðildarumsókn Íslands frá því í mars um að afnám gjaldeyrishafta sé skilyrði fyrir aðild að sambandinu og upptöku evrunnar.

Ég vil því spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvort það sé rétt að engin aðstoð muni fást frá Evrópusambandinu við að leysa kreppu krónunnar. Ef engrar aðstoðar er að vænta frá Evrópska seðlabankanum og lítill áhugi er á gjaldeyrisuppboðum Seðlabankans, hvernig á þá að losa okkur við gjaldeyrishöftin og hvað mun það taka langan tíma?

Seðlabankastjóri fullyrti nýlega að bankinn hafi ekki umboð til að kanna aðra kosti í gjaldmiðilsmálum en upptöku evrunnar. Bankinn hafi því aldrei rætt við til dæmis kanadísk og sænsk yfirvöld um möguleika á aðstoð við einhliða upptöku gjaldmiðils þessara landa. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvernig standi á því að Seðlabankinn hafi ekki umboð til þess að kanna aðra kosti en upptöku evru eins og lofað er í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna. Ég velti jafnframt fyrir mér hvort hæstv. ráðherra sé ekki sammála mér um að vandi þjóðarbúsins sé fyrst og fremst skuldavandi en ekki krónuvandi, eins og talsmenn evrunnar klifa stöðugt á.

Skuldakreppan í Evrópu hefur afhjúpað ókosti sameiginlegrar myntar. Jaðarríki hafa þurft að lækka nafnlaun og búa við (Forseti hringir.) stóraukið atvinnuleysi. Á sama tíma flýja eigendur evrueigna frá þessum löndum. (Forseti hringir.) Frú forseti. Telur hæstv. ráðherra að íslenska þjóðin muni sætta sig við slíkar aðstæður?