140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

kreppa krónunnar.

[11:50]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það var að sjálfsögðu rétt og skylt og sjálfsagt að taka umræðu við hv. þingmanns um þetta stóra mál en ég tek það fram að yfirskrift umræðunnar er þingmannsins en ekki mín.

Það er alveg ljóst að afnám gjaldeyrishafta er eitt umfangsmesta og erfiðasta viðfangsefni á sviði efnahagsmála sem nú er við að glíma og það stendur svo til eitt eftir þegar greiðst hefur úr öðrum málum okkar, svo sem eins og að ríkisfjármál eru komin á sæmilegt ról, hagvöxtur er hafinn og atvinnuleysi er á niðurleið og mörg önnur erfið viðfangsefni sem glímt hefur verið við undanfarin þrjú ár eru að vinnast, þá er þetta risavaxna verkefni áfram fyrir hendi. Hér birtist okkur í nánast öllu sínu veldi afleiðing bankabólunnar miklu og hrunsins sem hér reið yfir. Við erum að vinda ofan af þeirri stöðu sem hin glórulausu vaxtamunarviðskipti bjuggu til í hagkerfinu. Það gerir þetta verkefni mjög stórt og viðamikið að við bætist að nokkur halli er í uppgjöri gömlu bankanna og mun óhjákvæmilega taka nokkurn tíma að vinna stöðuna niður.

Það er rétt að leggja áherslu á að sú afnámsáætlun sem stjórnvöld hafa samþykkt og Seðlabankinn vinnur samkvæmt hefur allan tímann verið hugsuð sem sveigjanleg áætlun. Hún mundi taka breytingum eftir því sem henni vindur fram og ný viðfangsefni koma í ljós. Sérstök stýrinefnd ráðuneyta og stofnana fjallar reglulega um málið og einnig er að störfum nefnd á vegum efnahags- og viðskiptaráðuneytisins sem þingflokkar eiga fulltrúa í.

Tímans vegna ætla ég að víkja að þeim spurningum sem hv. þingmaður sendi mér. Þar er í fyrsta lagi spurt hvað hægt sé að gera til að hraða ferlinu. Núverandi áætlun byggir í aðalatriðum á þremur stoðum, þ.e. gjaldeyrisútboðum sem verið hafa í gangi og fram undan eru, það er fjárfestingarleið, og svo mögulegt útgöngugjald þegar fjármunum yrði hleypt út gegn gjaldi eða skatti. Auk þess er gert ráð fyrir því í áætluninni að ríkissjóður geti boðið upp á skuldabréfaskipti í tengslum við afnám haftanna.

Það skiptir miklu máli að menn hafi hér í huga mikilvægi þess að þessi áætlun sé þannig framkvæmd að það raski ekki stöðugleika í fjármálakerfinu og því hefur allan tímann verið lögð á það áhersla að áætlunin verður að taka mið af efnahagslegum og fjárhagslegum skilyrðum sem nauðsynleg eru og þurfa að vera til staðar til þess að framkvæmdin geti orðið árangursrík. Það er mikilvægt verkefni í því sambandi sem hv. þingmaður og málshefjandi kom inn á að tryggja að almenningur og ríkissjóður þurfi ekki að axla frekari byrðar í þessum efnum. Krafa um hröðun ferlisins, um hraðari framvindu, verður að skoðast í því samhengi að vissar forsendur og skilyrði verða að vera til staðar. Fjármálakerfið þarf að ráða við lausafjáráhrifin og við megum ekki taka áhættu af gjaldeyrisstöðugleika þannig að verðbólgan fari enn meira á flug og/eða að kostnaður lendi í stórum stíl á ríkinu eða almenningi af þeim sökum eða öðrum.

Það er mikilvægt að leggja áherslu á að hér er í raun um greiðslujöfnunarvanda að ræða. Jú, við getum líka kallað það skuldavanda í ljósi þess að of miklar skuldir innlendra aðila við útlendinga gætu komið til greiðslu á of skömmum tíma. Þess vegna snýst viðfangsefnið að sjálfsögðu um það að einhverju leyti að endurfjármagna þessar skuldir, það eru fyrst og fremst skuldir einkaaðila, og að glíma við þetta ferli innan tíma og rúms þannig að það sé viðráðanlegt. Varðandi lækkun snjóhengjunnar sjálfrar hafa menn nefnt þá möguleika sem taldir voru upp áðan og það verður að hafa í huga í þeim efnum þegar við tölum um hinar stóru tölur hér að þar er ekki um einsleita fjármuni að ræða. Aðeins hluti þessa fjár er laus og í reiðufé, annað er bundið til mislangs tíma og enn annað er í eignum sem útlendingar eiga beint eða óbeint.

Allt sem okkur leggst til í formi innstreymis á móti verður að sjálfsögðu hjálplegt þegar dregur úr skuldaniðurgreiðslu innlendra aðila, sem veldur tímabundið álagi á gengið, þá breytist jafnvægið í þeim efnum. Það er ekkert sem segir að allt þetta fé vilji fara eða muni fara á stuttum tíma út úr hagkerfinu og það eru ýmis ráð til þess að tryggja að svo verði ekki.

Upptaka evru eða nýs gjaldmiðils breytir í sjálfu sér ekki eignarhaldi á fjármálalegum eignum og skuldum, það er mikilvægt að menn það hafi í huga, og það er rétt að undirstrika að hér er ekki um að ræða skuldir ríkisins í grunninn. Er krónan vandinn? Ja, að því marki sem hún nýtur ekki enn nægjanlegs trausts getur hún að sjálfsögðu verið það. Það er mikilvægt að menn muni eftir því að þegar upp er staðið eru það undirstöður hagkerfisins, verðmætasköpunin hér á landi og (Forseti hringir.) aðgangur að viðskiptum við útlönd sem þurfa að vera til staðar til þess að við getum unnið þessa stöðu niður. (Forseti hringir.) Seðlabankinn hefur að sjálfsögðu umboð til að skoða alla kosti í þeim efnum en hann breytir ekki stefnu stjórnvalda. (Forseti hringir.)

Að lokum varðandi ytri áföll er alveg ljóst að það eru kostir og gallar, fórnir og kannski ávinningar af því að hverfa frá þeirri skipan peningamála sem við höfum í dag.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill áminna hv. þingmenn um að gæta að ræðutíma.)