140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

kreppa krónunnar.

[12:14]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir að hefja þessa umræðu hér.

Ég held að full ástæða sé til, sérstaklega í ljósi þess hvernig meðal annars hv. síðasti þingmaður talaði, að hafa áhyggjur af því á hvaða vegferð við erum í þessu máli og verulegar áhyggjur af því að það skuli vera undir stjórn núverandi ríkisstjórnar. Það liggur alveg ljóst fyrir að við verðum að taka á þessari snjóhengju með einhverjum hætti. Margir hverjir tala um það, eins og hæstv. utanríkisráðherra og fleiri, að þessi mál verði leyst með því að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru og mér heyrist það fela í sér að breyta eigi snjóhengjunni í einhvers konar langtímalán. Er það það sem við Íslendingar viljum? Er það heppilegast fyrir þjóðarhag?

Ég held að þeir sem tala eins og hv. þingmaður sem talaði hér á undan, Helgi Hjörvar, verði að svara því hvernig eigi að taka á þessu máli til frambúðar.

Það liggur ljóst fyrir að þeir sem þarna eiga fjármuni eru meðal annars erlendir kröfuhafar og erlendir aðilar. Maður hlýtur að spyrja sig þeirrar spurningar, í ljósi þess að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar Samfylkingarinnar virðast ekkert sjá nema evruna og Evrópusambandið, hvort þeir verði tilbúnir til þess þegar á hólminn er komið að taka einhverja þá ákvörðun sem ekki mun þóknast fjármálakerfi Evrópu. Ég hef miklar efasemdir um að menn verði tilbúnir til þess, ekki frekar en þeir voru tilbúnir til þess í Icesave-málinu. Það gefur tilefni til að hafa áhyggjur af því að þessum málum sé ekki best borgið undir forustu núverandi ríkisstjórnar. Ríkisstjórnin hefur enga hagsmuni af því að afnema gjaldeyrishöftin, rétt eins og hv. þm. Helgi Hjörvar kom inn á áðan, vegna þess að þá er búið að taka gulrótina við enda ganganna, gulrótina sem er evran.

Þetta er mikið áhyggjuefni (Forseti hringir.) frú forseti og ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka þessa umræðu upp á Alþingi.