140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

kreppa krónunnar.

[12:21]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka sömuleiðis þessa umræðu en ég legg áherslu á að það er mikilvægt að ræða þetta yfirvegað. Það er ekki heldur ástæða til að magna upp óþarfaáhyggjur af því að þetta verkefni sé ekki viðráðanlegt og leysanlegt, en það er erfitt og það mun taka tíma. Vanda þarf hvert skref í þessum efnum, eigi að takast að gæta alls þess sem hér hefur verið nefnt, að því verði ekki kostað til að dýrkeyptar fórnir verði fyrir borð bornar og verði að engu, til að ná hér stöðugleika í hagkerfinu, og að kostnaðurinn lendi á þeim sem ekki eiga að þurfa að bera hann, þ.e. skattgreiðendum komandi ára og ríkissjóði.

Það er ástæða til að vekja athygli á því að það er fyrst nú á síðustu mánuðum eða einum til tveimur missirum sem sæmilega skýr mynd hefur komist á það hver stærðin er í þessum efnum, meðal annars vegna þess að það tók langan tíma að greina og fá fram upplýsingar um jafnvægið í uppgjöri gömlu bankanna og fleiri þættir þurftu að skýrast áður en menn gátu séð málið fyrir sér í heild.

Það er líka ástæða til að leggja áherslu á að hér er um mjög ólíka þætti að ræða: Í sumum tilvikum er það lausafé sem liggur inni á bankabókum. Í öðrum tilvikum er þetta bundið í skuldabréfum til mislangs tíma. Í þriðja lagi er það uppgjör gamla og nýja Landsbankans og í fjórða lagi er það eignarhaldið á hinum bönkunum tveimur.

Þetta þarf að hafa í huga og það á líka að róa menn gagnvart því að þetta er ekki eitthvað sem skollið getur á okkur á einni nóttu sem holskefla útflæðis sem enga stjórn er hægt að hafa á. Það er ekki þannig. Eftir breytingar á gjaldeyrislögunum í vetur er hægt að stýra því því hvernig það gerist. Það er einmitt ætlunin í gegnum uppboð að láta á það reyna hversu lök kjör í skiptum þeir sætta sig við sem liggur mest á að fara burt með fjármuni sína. (Forseti hringir.) Við getum kallað það skiptigengisleið. Þá kemur í ljós hvað menn sætta sig við í þessum efnum og hvað ekki. Þar með verður viss niðurskrift í gegnum útboðin ef þannig er að sumir eru tilbúnir til þess að fara (Forseti hringir.) á mjög óhagstæðu gengi. Þannig er meiningin að byrja að vinna þennan stabba niður og nota svo eftir atvikum blandaðar aðferðir skuldabréfaútgáfu og samninga sem hér voru (Forseti hringir.) nefndir sem til þess að ná utan um restina.