140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Þetta er mín fyrsta ræða, svo að ég taki það sérstaklega fram, og ég er ekki í málþófi. Ég tel mig eiga rétt á því að ræða þetta mál við síðari umr. sem ég geri hér með.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði í umræðunni að sjálfstæðismenn væru á móti þessu máli eins og öllum öðrum. Það tel ég alls ekki vera. Ég mótmæli því að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti þessu, hann er ekkert á móti breyttri skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Það sem hann er á móti er hvernig að þessu er staðið og hvað fylgir með.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir var ánægð með eigin verkstjórn og það er gott að menn séu það. Hins vegar tel ég að menn hefðu getað gert meiri kröfur til flytjenda málsins um að betur hefði verið unnið að undirbúningnum. Hún veifaði skýrslu frá fyrirtækinu Stjórnarhættir, sem mér hefur því miður gefist allt of lítill tími til að glöggva mig á, því að margt er að ræða og umræðunum var slitið um eittleytið í nótt. Þá var ég undirbúinn undir ræðuna en hef sem sagt ekki fengið þann tíma til að ræða þá skýrslu sem þyrfti.

Í öllum rekstri og í öllum fyrirtækjum og samfélögum er ákveðin stjórnun. Það er eitt af því fyrsta sem menn uppgötva að nauðsynlegt er að hafa stjórn á verkefnum samfélagsins, jafnvel mjög frumstæð samfélög eru með stjórn. Stjórn getur verið af ýmsum toga, það getur verið svona tregastjórn, treg, fljótandi stjórn, mjög litlar breytingar og helst engar sem lengst, og það hefur oft loðað við opinbera stjórnsýslu að þar séu ekki miklar byltingar á ferðinni. Svo er til byltingarstjórnun, sem er líka vinsælt í stjórnunarfræðum, að það þurfi að bylta öðru hverju til að menn meti einstaka þætti stjórnunarinnar alveg frá grunni. Þetta er líka ákveðið form á stjórnun. En menn vara við því þegar rætt er um byltingarstjórn að hún má ekki vera það ört að menn nái aldrei að stjórna í raun vegna byltinganna.

Svo er breytingastjórnun líka vinsæl, það er að breyta stjórnuninni reglulega með kerfisbundnum hætti. Ég held að það sé kannski það sem er affarasælast. Fyrir þjóðina skiptir verulegu máli hvernig stjórnun þessa stærsta fyrirtækis landsins, sem er ríkisvaldið, langsamlega stærsta fyrirtæki landsins, er háttað. Það er það sem við ræðum hér í dag og ég tel mig hafa leyfi til að ræða, frú forseti.

Það skiptir þjóðina verulegu máli að hafa skilvirka stjórn á hinni opinberu stjórnsýslu. Því miður er það þannig, og ég er ekki alveg sáttur við það, að þessari stjórnsýslu er skipt niður á ráðuneyti og þar voru eitt sinn tólf persónur, ráðherrar, í byrjun þessarar ríkisstjórnar og þar áður, höfðu verið tólf nokkuð lengi. Síðan var þeim fækkað niður í tíu og svo níu og nú er stefnt að því að hafa þá átta. Jú, það sparast peningar, ráðherrabílar og bílstjórar, jú, jú, en ég held að það sé algert smáatriði í þessu dæmi. Góð stjórnun getur nefnilega skapað mikinn auð, skilvirk stjórnun getur veitt góða þjónustu á ódýrari hátt en óskilvirk. Það er væntanlega það sem menn eru að stefna að.

Vandinn sem við búum við í þessu stjórnarkerfi, bæði kostir og gallar, er að þetta er fjölskipað stjórnvald, þ.e. hver ráðherra tekur ákvarðanir einn og sér og ber á þeim ábyrgð. Þess vegna getur þetta orðið dálítið sundurlaus stjórnun, svona eitt stykki ríkisstjórn og eitt stykki stjórnsýsla, mjög sundurlaus og togast eiginlega fram og til baka því að einn ráðherra getur tekið ákvörðun sem kannski stangast á við það sem annar ráðherra er að gera í öðru ráðuneyti.

Ríkisstjórninni er ætlað að samræma þetta en gengur illa, sérstaklega þegar menn eru ekki mjög samvinnufúsir. Og þeir þurfa þess ekki í rauninni.

Í nótt var rætt aðeins um breytingar sem hefðu orðið fyrr á tíð og þær voru ekkert endilega til fyrirmyndar, frú forseti. Við þurfum að gæta okkar á því að þó að eitthvað hafi verið gert einhvern tímann fyrir hrun, þegar menn áttuðu sig ekki á því hvað stjórnsýslan var í rauninni vanbúin, þá séu menn ekki að bera það saman við hvernig við ætlum að gera hlutina í dag. Ég vona að flestir hv. þingmenn vilji vinna öðruvísi núna en fyrir hrun og ætli sér að gera það.

Ég man að það var mikil umræða þegar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið var sameinað félagsmálaráðuneytinu og allar þær breytingar sem þar áttu sér stað og því var ætlaður langur tími. Ég hugsa að menn séu komnir yfir það núna, margt sem þar var gert og eflaust margt þarft en annað hefði kannski mátt gera öðruvísi. Það var mikil umræða engu að síður.

Hvers vegna er þessi tillaga sem við erum að ræða borin fram til þingsályktunar? Hún er vegna þess að inn í lögin um Stjórnarráð Íslands var sett ákvæði um að breytingar á stjórnskipan ætti að leggja fyrir Alþingi. Og þá veltir maður fyrir sér til hvers og hvað á eiginlega að felast í því. Á bara að koma tilkynning: Við ætlum að breyta Stjórnarráðinu, samþykkið það, punktur? Svo breytum við því bara eins og okkur dettur í hug.

Það var örugglega ekki meiningin. Meiningin var örugglega að það væri meira kjöt á beinunum en það er ekki í þeirri tillögu sem við ræðum hér. Ég er búin að lesa hana nokkrum sinnum í gegn og ég sé bara ekki neitt út úr því hvernig Stjórnarráðið á að líta út.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir kom inn á athyglisverðan punkt um það að svona breytingar ætti að gera í upphafi starfstíma ríkisstjórnar. Ég er henni hjartanlega sammála, frú forseti, og ég hygg að sjálfstæðismenn séu henni sammála og að menn vilji hafa þennan möguleika að breyta Stjórnarráðinu við upphaf kjörtímabils, við upphaf nýrrar stjórnar, og hanna þá Stjórnarráðið að sínum þörfum og í samræmi við sína heimssýn. Það er ekki bara eitthvert náttúrulögmál hvernig þetta er gert, eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði í gær, að þetta væru svo góðar breytingar að það þyrfti ekki að breyta í næstu framtíð. Það er bara ekki rétt, þetta eru pólitískar breytingar og ég kem inn á það á eftir af hverju þetta eru pólitískar breytingar.

Það er verið að breyta til að ná fram ákveðinni stefnu og um leið og búið er að kjósa upp á nýtt og komin ný ríkisstjórn sem hugsanlega er með aðra stefnu mun hún breyta þessu. Þess vegna er fráleitt að koma núna hálfu ári fyrir kosningar — þetta á að taka gildi í september og svo fer allt ferlið í gang og það er verið að breyta bara fram að kosningum. Svo kemur að sjálfsögðu ný ríkisstjórn eftir kosningar, ég býst við því, og ég geri ráð fyrir að hún hafi aðra stefnu. Hún verður mjög ólíklega vinstri stjórn. Sú ríkisstjórn mun gjörbreyta þessu öllu saman þegar nýbúið er að breyta því. Þetta er alveg hreint fyrir neðan allar hellur. Þess vegna er ég svona eindregið á móti þessu.

Það hefði verið gott ef þetta hefði komið fram á upphafsári ríkisstjórnarinnar fyrir þremur árum. Þá hefði þetta verið fínt, þá hefðu menn getað rætt: Ja, við ætlum að leggja áherslu á auðlindaráðuneytið, við ætlum að leggja áherslu á þetta o.s.frv. og við ætlum að breyta Stjórnarráðinu svona og koma hérna með ákveðinn strúktúr, ákveðna mynd af Stjórnarráðinu þannig að allir megi vita hvað er að gerast. Ég hefði alveg fallist á það en ekki svona seint og ekki þegar ekkert liggur fyrir hvað á að gera.

Þetta var sem sagt um það sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði um það að þetta væri orðin góð og endanleg niðurstaða. Hún verður það aldrei og þess vegna er mjög gott að hafa þennan möguleika. Það sem þarf að bæta inn í þessi lög, frú forseti, er að þar sé sagt að með þingsályktunartillögunni fylgi uppbygging ráðuneyta, strúktúrinn, hvernig menn ætla að hanna þetta, hönnunin á öllu dæminu. Hvar á Hagstofan að vera? Hvar á til dæmis Hafrannsóknastofnun að vera? Hvar á Orkustofnun að vera, heyrir hún undir auðlindaráðuneytið eða atvinnuvegaráðuneytið? (Gripið fram í.) Þetta þyrfti að liggja fyrir þannig að bæði þeir þingmenn sem eru að fjalla um þetta hér í þingsal og eins almenningur, og sérstaklega þeir embættismenn sem eru að vinna í stjórnsýslunni, viti hvað bíður þeirra. Það er mjög skýrt og það er mjög nauðsynlegt í svona stjórnunarstrúktúr að menn viti nákvæmlega hver er yfir hverju. Undir hvaða ráðherra heyrir ákveðin stofnun? Það er bara mikilvægast af öllu.

Ég tel að við verðum að breyta þessum lögum fyrst þetta gafst svona illa, það er komið með svo magra þingsályktunartillögu að við þurfum að breyta þessum lögum um Stjórnarráðið þannig að þessi þingsályktunartillaga hafi meira kjöt á beinunum, þ.e. að það komi fram hvernig skipan Stjórnarráðsins á að vera, hvernig stjórnunin á að vera, undir hvaða ráðuneyti viðkomandi stofnanir eiga að heyra og hvort menn ætla að koma með nýjar stofnanir, eins og Þjóðhagsstofnun, sem hér hefur verið rædd líka en kemur hvergi fram hvar á að vera. Ég er ekkert á móti Þjóðhagsstofnun, alls ekki, það urðu miklar umræður þegar hún var lögð af og ég minnist þess hér fyrir nokkuð löngu að stjórnarandstæðingar sem nú sitja í ráðherrastólum gagnrýndu niðurstöðu frá Þjóðhagsstofnun af því að hún væri ríkisfyrirtæki, þetta væri ríkisapparat, þetta væri alltaf litað af meiningu ríkisstjórnarinnar, þetta væri ríkisstjórnarþjóðhagsstofnun. Nú er það allt saman gleymt og nú ætla menn sem sagt að koma með Þjóðhagsstofnun og það er kannski ágætt að þingmenn hafi þarna eitthvert tæki til þess að meta hluti.

Þetta þarf að fylgja með í þessari þingsályktunartillögu, einhver mynd af því sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að gera, strúktúr, og síðan þarf að koma fram kostnaður og sparnaður, kostnaður við breytinguna og ekki bara húsnæðiskostnaður því að hann er, held ég, oft og tíðum bara það lægsta. Kostnaðurinn er aðallega breytingar á starfsmönnum, biðlaun og alls konar slíkir hlutir, röskun þegar einn á að fara að starfa allt í einu í annarri stofnun og þarf að læra upp á nýtt o.s.frv., sem getur reyndar verið mjög hollt, frú forseti, fyrir einstaklinginn og viðkomandi stofnun en kostar sitt.

Þetta þyrfti að liggja fyrir og eins sparnaður af sameiningu ráðuneyta sem þyrfti líka að liggja fyrir. Þessi þingsályktunartillaga gefur mikið tækifæri til þess að koma með góða stjórnun á þessu stærsta fyrirtæki landsins. Ríkisstjórnin missti af því tækifæri að koma hér með endanlega útfærða útfærslu á þessu sem hefði náttúrlega átt að koma fyrir þrem árum þannig að því sé til haga haldið. Ég vona að eftir næstu kosningar muni menn koma með endanlega útfærslu eins og þeir vilja sjá Stjórnarráðið út kjörtímabilið og þá sé það gert strax og það sé nákvæmlega skilgreint hvaða stofnun heyrir undir hvaða ráðherra þannig að ekki fari á milli mála hver ber ábyrgð og hver ákveður.

Þá kem ég að umhverfis- og auðlindaráðuneytinu sem er nýlunda og á að fá aukið vægi. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði að það væri mjög mikilvægt og það leiðir strax hugann að því hvað auðlind er. Ég hef ekki einu sinni fengið neina skilgreiningu á því og í þessari umræddu skýrslu sem ég hef rætt hér frá ráðgjafarfyrirtækinu Stjórnarhættir er talað um að auðlind sé bara land, loft, vatn, hafrými. Það er ekkert land, loft, vatn og hafrými, frú forseti. Auðlind er nokkuð sem menn hafa skapað auð úr. Það er svo merkilegt að fyrir 100 eða 200 árum voru engar auðlindir á Íslandi. Það voru bara akkúrat engar auðlindir á Íslandi. (Gripið fram í.) Þjóðin var sárafátæk, ein sú fátækasta í Evrópu, og fækkaði og fækkaði. Það geta ekki hafa verið auðlindir. (ÁI: Hver nýtir þær?) Akkúrat. Þær voru ekkert nýttar. Sjávarútvegurinn krafðist mannslífa á hverju einasta ári, tugir manna fórust við Ísland við sjósókn. Er það auðlind að borga með mannslífum?

Jökulárnar voru til bölvunar í öllum sveitum. Menn misstu hesta og hunda og mannslíf fóru líka þegar menn fóru yfir jökulárnar af því að þær voru ekki brúaðar. Það var ekki fyrr en mannauðurinn kom til og byggði, verkfræðingarnir sem byggðu góð skip, örugg skip, sem geta veitt í öllum veðrum — nú hefur það gerst 2008 í fyrsta skipti í Íslandssögunni að við misstum engan sjómann. Það er ekki vegna þess að auðlindin sé svona góð, heldur vegna þess að mannauðurinn byggði örugg skip og öll sú tækni sem þar er til að ná í fiskinn. Gífurleg tækni, bæði í markaðssetningu og í veiðum og vinnslu og ég veit ekki hvað. Það er mjög gaman að koma í frystihús og sjá alla tæknina, allan mannauðinn sem er þar inni. Þá verður auðlindin að auðlind, þá fyrst, þannig að ég fullyrði að fyrir 200 árum hafi engin auðlind verið á Íslandi. Og hugtakið auðlind hefur ekki verið skilgreint.

Ég tel til dæmis mikla auðlind í rafsegulbylgjum og tíðnisviði þeirra. Hver má ráða hver má senda út á ákveðnu tíðnisviði? Við göngum öll með síma, við erum öll með tölvur, fjartengd og nettengd, og þetta byggir allt á tíðnisviði rafsegulbylgju og það eiga eftir að verða mikil verðmæti. Það er ekki minnst á þau hérna, að það heyri undir auðlindaráðuneytið. Það á eftir að verða auðlind og hver á að selja? Hver á að eiga?

Önnur auðlind sem ekki er heldur minnst á er kolefnisskattarnir sem eru að koma eða losunarheimildir kolefnis og losunarheimildir yfirleitt. Þær eiga eftir að verða mikil auðlind og það er ekki minnst á þær. Ég hugsa, frú forseti, að það verði mesta auðlind Íslands eftir svona 10–15 ár. Þá verða það losunarheimildirnar sem munu verða seldar hér á hæsta verði og það mun hækka verðið á íslenskri orku óhemjumikið af því að hún er hrein og þarf ekki að borga losunarheimildir. Losunarheimildir í heiminum sem munu verða settar á alls staðar, líka í Kína, líka á Indlandi og út um allt, munu gefa Íslendingum enn meiri auðlind í orkunni okkar sem er hrein.

Nú þarf ég að drífa mig. Eins og ég gat um í byrjun mun verða ágreiningur og átök um auðlindir og auðlindaráðuneytið. Á Hafrannsóknastofnun að heyra undir atvinnuvegaráðuneytið eða auðlindaráðuneytið? Hafrannsóknastofnun er að rannsaka auðlindina og gæta hennar þannig að auðlindaráðherrann mun að sjálfsögðu vilja stjórna henni. Er þetta á hreinu, liggur þetta fyrir? Hvernig er með Orkustofnun? Hvað með Landsvirkjun, eitt ríkasta fyrirtæki landsins sem situr á öllum auðlindum, ekki öllum en stórum hluta af orkuauðlindum Íslands, sem eru gífurlegar? Á hún að heyra undir auðlindaráðuneytið af því að þarna eru auðlindir landsins? Á hún að heyra undir atvinnuvegaráðuneytið af því að þarna er atvinnuvegur landsins? Eða á hún að heyra undir fjármálaráðuneytið sem fer með hlutabréfið? Þetta er ekki skýrt, þetta mundi ég vilja hafa skýrt. Það þarf að vera á hreinu hver tilnefnir stjórnir og hver ræður og hvernig inngripin verða. Menn tala hér endalaust um samráð ráðherra, samráð og aftur samráð. Þetta finnst mér vanta og mér finnst vanta inn í þetta dæmi allt saman strúktúrinn.

Menn misstu af mjög góðu tækifæri, gullnu tækifæri, til að segja: Þetta er nýtt Stjórnarráð fyrir Ísland, það lítur svona út, þarna á stjórnunin að vera svona. Ég hefði fagnað því. Ég fagna yfirleitt góðri stjórnun en að koma með þetta allt saman losaralegt og óútkljáð, og Alþingi getur ekki útkljáð það. Svo verður þetta afgreitt héðan sem þingsályktun Alþingis og þá byrja menn að hanna Stjórnarráð Íslands og þá byrja deilurnar af því að það er ekki búið að ræða það fyrir fram. Þá mun umhverfis- og auðlindaráðherra segja: Ja, heyrðu, að sjálfsögðu ræð ég yfir Landsvirkjun, þarna eru auðlindir landsins, ég vil fá að tilnefna stjórnina, ég vil fá að hafa með það að segja hvar er virkjað. Atvinnuvegaráðuneytið mun segja: Ja, þetta er svo stór hluti af atvinnuvegum landsins að ég verð að hafa með það að segja.

Svona vinna menn ekki ef þeir ætla að búa til góða stjórn. Ég óttast, en ég vona að það rætist ekki, að þetta stjórnarráð verði fullt af deilum af því að ekki er búið að leysa málin fyrir fram, fullt af deilum, hótunum og öðru slíku. Það sem ég geri mestar athugasemdir við er þó að það skuli koma svona seint fram, í lok kjörtímabils, og að síðustu breytingarnar munu eiga sér stað eftir kosningar.