140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég óttast það, já. Ég óttast sérstaklega að það skuli ekki vera frágengið. Ef Landsvirkjun mundi heyra undir auðlindaráðuneytið þá yrði það bara þannig, það yrði lítið virkjað og lítið gert að sjálfsögðu, menn mundu taka náttúruna fram yfir mannfólkið. Þannig yrði staðan. En það er ekki einu sinni klárt þannig að það munu verða deilur og deilurnar eru verstar því þá er ekkert gert, hvorki á þennan veginn né hinn. Það óttast ég eiginlega mest, deilur um skipulag í einstökum ráðuneytum. Það má vel vera að hæstv. forsætisráðherra sé búin að leysa það mál með sinni alkunnu verkstjórn, að það liggi nákvæmlega fyrir að við gerum þetta svona og svona, það sé búið að samþykkja það. En af hverju í ósköpunum kemur það þá ekki fram hérna? Af hverju má það ekki koma fram hérna tveim vikum fyrr? Einhvern tímann kemur fram hvar þessar stofnanir eigi að vera.

Ég hef grun um að ekki sé búið að leysa þetta. Það verði ráðaleysi og áframhaldandi verkleysi vegna þess að menn eru ekki búnir að gera þann strúktúr sem þyrfti að gera fyrst. Það átti að sjálfsögðu að gera við upphaf kjörtímabilsins. Þá vorum við kannski hugsanlega ekki komin jafnlangt og núna, en mér finnst of seint að síðustu breytingarnar fari í gang í september og verði komnar í fullan gang um það leyti sem kosið verður.