140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:30]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi örugglega lýst þeirri skoðun minni þegar stjórnarráðsfrumvarpið svokallaða var til umræðu í haust að stjórnarráðslögin frá því 1969 hefðu verið mjög góð og reynst mjög vel. Ég held hins vegar að það sé ekkert guðlast að endurskoða lög á 40 ára fresti. Ég fylgdi því frumvarpi sem þá var lagt fram og studdi það. Síðan náðist málamiðlun og farin var sú leið að kynna skyldi breytingar eins og þær sem núna eru lagðar til í þingsályktunartillögu og þá er það gert.

Mér heyrðist á ræðu hv. þingmanns að mikið af því sem hann hafði út á málið að setja væri hvernig það er lagt fram því að það væri ekki eftir gamla kerfinu. En það er nú svo að þegar menn breyta um aðferðir þá breytast þær. Við erum náttúrlega misjafnlega íhaldssöm að því leytinu til. Hins vegar er ljóst að samkvæmt þeim nýju reglum sem við störfum núna eftir í sambandi við Stjórnarráðið þá á ekki og þarf ekki að leggja það fyrir Alþingi hvernig stofnanauppbygging verður og þess vegna er það ekki gert. Framkvæmdarvaldið hefur það á valdi sínu og mér finnst það eðlileg skipting á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins, en við getum deilt um það.

Svo að það sé ljóst verður væntanlega kynnt hvernig á að haga þessu áður en það tekur gildi 1. september.

Ég kem að öðru sem kom fram í máli (Forseti hringir.) þingmannsins í seinna andsvari.