140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, ég var í raun og veru að gagnrýna það fyrirkomulag sem þessi þingsályktunartillaga byggðist á.

Hv. þingmaður sagðist á sínum tíma hafa verið þeirrar skoðunar að gömlu stjórnarráðslögin hefðu reynst vel. Ég er sammála henni um það, en ég geng lengra því að ég segi: Gamla kerfið var miklu betra en það kerfi sem núna er verið að innleiða. Ég óttast að núna sjáum við það að við erum að færast aftur um þau 40 ár sem þessi gömlu lög voru þó í gildi — ég ætla ekki að taka of djúpt í árinni en við erum að minnsta kosti að nálgast það ástand sem var fyrir árið 1969 og menn höfðu algerlega fengið sig fullsadda á. Við sjáum það birtast í þessari þingsályktunartillögu.

Það vita allir að hér fór fram mikill ráðherrakapall um áramótin og þá þurfti að ráða mörgum ráðum. Til að þessi mikli kapall gengi upp þurfti að gera aðskiljanlegar breytingar. Vitaskuld styðja menn sem kynna þessar breytingar það ekki með þeim rökum, auðvitað reyna þeir að setja það í einhvern efnislegan búning, en það vill svo til að þessi umræða fór fram fyrir opnum tjöldum og einstakir þingmenn og ráðherrar hafa greint það mikið frá þessum breytingum að það er ljóst að þetta er bakgrunnur málsins.

Nú segir hv. þingmaður að það þurfi ekki að leggja fyrir Alþingi þær stofnanabreytingar sem ætlunin sé að grípa til. Ég hafði satt að segja líka ímyndað mér að svo yrði, en hæstv. forsætisráðherra sagði undir lok fyrri umræðu málsins hið gagnstæða. Þegar ég kallaði eftir svörum við spurningunum um Hafrannsóknastofnun þá sagði hæstv. ráðherra að það yrði komið fram með lagafrumvarp síðar á þessu ári, talaði um að yrði í haust, til að fullnusta þessar breytingar. Nú heyrist mér að verið sé að gera hæstv. forsætisráðherra afturreka með það (Forseti hringir.) eða ómerking orða sinna í þessum efnum og þá liggur það bara fyrir.