140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:39]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Breyting á skipan ráðuneytanna er enn einu sinni til umræðu í þinginu. Þessi ríkisstjórn ætlar ekki að gefast upp við það að kollvarpa því góða samfélagi sem búið var að byggja upp og virðist þetta vera einhver málamiðlun til að uppfylla nokkur kosningaloforð annars stjórnmálaflokksins sem situr í ríkisstjórn, þ.e. Vinstri grænna. Það var upplýst um það í gær þegar hv. þingmaður sem situr nú á forsetastóli lýsti því yfir að loksins væri stefnumál Vinstri grænna komið í gegn, að sameina auðlinda- og umhverfisráðuneytið.

Á sínum tíma var ég mjög hlynnt því að umhverfis- og auðlindamál yrðu sameinuð undir eitt ráðuneyti, en eftir að hafa skoðað umsagnir um málið og kynnt mér það örlítið betur tel ég að það stangist mjög á ef bæði stjórnun og nýting verður á hendi sama ráðherra. Það gæti skapað mikla togstreitu. Ég varð sérstaklega hugsi yfir því eftir að rammaáætlun kom til þingsins þar sem ekki nokkur einasta samstaða hefur verið milli stjórnarflokkanna um það hvar eigi að nýta auðlindir, hvar eigi að virkja og hvar eigi að taka þá orku sem orkufyrirtæki landsins þurfa svo sárlega á að halda, sérstaklega Landsvirkjun — er ég þá að sjálfsögðu að vísa í hagkvæmasta kost Landsvirkjunar, að virkja í neðri hluta Þjórsár.

Ríkisstjórnin lét sig ekki muna um að krukka í þetta plagg sem unnið var af mikilli sérþekkingu á nýtingu og friðunarmálum hjá þeim vinnuhópum sem skipaðir voru og urðu til þess að plaggið um hugsanlega virkjunarkosti var lagt fram fyrir alla stjórnmálaflokkana á þingi, en því var breytt — ég fór yfir það áðan.

Ég hef hrósað þeirri skýrslu sem liggur til grundvallar sem hafði komið inn á borð ríkisstjórnar langtum fyrr en stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sá hana. Henni var fyrst dreift á fundi fyrir örfáum dögum þegar farið var ítarlega yfir greiningu á verkefnum ráðuneyta og viðhorfum hagsmunaaðila, skipan efnahags- og viðskiptamála innan Stjórnarráðsins, sameiningu eða aðskilnað Fjármálaeftirlits og Seðlabanka.

Samanburður við ráðuneyti annars staðar á Norðurlöndum tel ég að sé alltaf mjög til bóta þegar við samþykkjum lög á Alþingi eða leggjum fram þingsályktunartillögur, að við höfum einhvern samanburð við önnur norræn lönd vegna þess að þangað sækjum við mikið löggjöf okkar í stað þess að Alþingi Íslendinga sé alltaf að finna upp hjólið. Það má samt alveg deila um uppsetninguna á samanburðinum við önnur norræn lönd í þessari skýrslu vegna þess að hún hefði mátt vera langtum ítarlegri og sett upp á gagnrýninn hátt, en samanburðurinn byggist fyrst og fremst á jákvæðum þáttum sem styðja þá þingsályktunartillögu sem er til umræðu í stað þess að taka bæði kosti og galla þess hvernig málum er háttað annars staðar á Norðurlöndum.

Í þeirri skýrslu sem ég var að vísa í, sem var dreift á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, er m.a. að finna minnisblað um stofnun ráðherranefndar um stjórnkerfisumbætur. Svo er tillaga að skipulagi við framkvæmd ráðuneytabreytinga og vísað í samráðshópa og verkefnisstjórnir. Fyrirtæki var fengið til að taka þetta saman og eru þetta þau rök sem notuð eru í þessari þingsályktunartillögu. Það er athyglisvert að þetta kemur ekki fram fyrr en seinni umræða um breytta skipan ráðuneytanna í Stjórnarráði Íslands fer fram sem sýnir hvað málið er illa undirbúið að öllu leyti.

Löggjöf annars staðar á Norðurlöndum byggist þannig upp að haft er sem mest samráð við hagsmunaaðila og þá flokka sem sitja á þjóðþingum þessara ríkja og jafnframt eru lagasetningarferlin langtum lengri en hér á landi, enda varð hér bankahrun og var fótunum kippt undan okkur sem þjóð vegna þess að fyrst og fremst hafði ekki verið vandað nógu vel til lagasetningar í aðdraganda hrunsins, ekki var heldur nógu vel vandað til verka við innleiðingu EES-reglugerða því að eins og við vitum þurftum við sem aðilar að EES-samningnum að taka upp löggjöf fjármálamarkaðsins í gegnum EES-samninginn.

Núverandi ríkisstjórn gagnrýndi mjög ríkisstjórnir Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á árum áður m.a. fyrir vinnubrögð en það er nú svo, frú forseti, að þegar aðilar komast til valda þá beita þeir jafnvel verri vinnubrögðum en áður voru og hefur það kristallast í þessari umræðu.

Það sem ég fagna kannski mest í þeirri skýrslu sem starfshópurinn vann fyrir ráðuneytin er að nú er búið að skilgreina að nokkru leyti það sem ég hef verið að kalla eftir varðandi auðlindamál og ekki síður hvað flokkast til atvinnugreina hér á landi því að mörkin þar á milli hafa verið mjög óljós. Ég er ekki að segja að þetta sé tæmandi talning en þarna er þó alla vega sýndur vilji til að flokka og sortera hvað tilheyri hverjum málaflokki.

Ég kynnti það í gær þegar ég hélt ræðu mína að ég hef tvisvar sinnum lagt fram þingsályktunartillögu um að brýnt sé að við skilgreinum hverjar auðlindir okkar eru og hvernig eigi að nýta þær en sú tillaga virðist vera of góð til að ríkisstjórnin geti tekið hana upp eða hleypt því máli á dagskrá og þá er þetta komið í staðinn í þeirri þingsályktunartillögu sem nú liggur fyrir.

Atvinnugreinar okkar sem hafa ekki raunverulega legið fyrir áður eru tíundaðar í 12 liðum, þ.e. landbúnaður, sjávarútvegur, matvælaiðnaður, iðnaður, orkuiðnaður, mannvirkjagerð, ferðaþjónusta, hugverkaiðnaður, samgöngur, fjarskipti, verslunarþjónusta og fjármálaþjónusta. Þarna er búið að koma atvinnugreinum okkar fyrir í 12 liðum. Þessar atvinnugreinar hafa verið í nokkrum ráðuneytum og því ekki allar á sama stað eins og við vitum. Að því leyti gefur þetta plagg mjög góða yfirsýn yfir það verkefni sem fyrir liggur. En það er ekki þar með sagt að ég sé sammála þeim tillögum sem liggja fyrir í þessari þingsályktunartillögu um þá leið sem ríkisstjórnin er að fara.

Eins og komið hefur fram í flestum ræðum þá er það svo að þó að búið sé að skilgreina atvinnugreinar okkar í 12 liðum í þessu plaggi þá er eftirfylgnin eftir. Það er algerlega óljóst hvaða stofnanir eiga að fara með hverju ráðuneyti, hvort skipta eigi upp stofnunum eftir því í hvaða ráðuneyti þær lenda o.s.frv. Það hefur til dæmis komið fram að Landsvirkjun nýtir auðlindir og er jafnframt í sölu og atvinnuskapandi. Sú vinna er því öll eftir. Þess vegna skil ég ekki alveg þann asa sem er á þessu máli. Við í stjórnarandstöðunni, stjórnarandstaðan telur núna einungis Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk eftir að Hreyfingin ákvað að styðja þessa ríkisstjórn með viðveru sinni á flestum málum sem koma frá henni, höfum bent á að grunninn vantar fyrir það sem á að koma í framhaldinu, þetta þarf að vinna betur og ætti þess vegna að vinnast langtum betur í sumar og gæti þá verið fyrsta málið hingað inn í haust.

Það hefur líka verið mjög gagnrýnt að verið sé að hræra í ráðuneytum núna rétt áður en þessi ríkisstjórn hrökklast frá völdum því að það er minna en ár í kosningar. Reyndir þingmenn og aðilar úti í samfélaginu hafa bent á að þetta sé mjög einkennileg ráðagerð sem stýrist ekki af hagsmunum íslensku þjóðarinnar heldur af deilunum innan ríkisstjórnarinnar og þeirri sókn hjá þingflokki Vinstri grænna að losna við ákveðna aðila frá ríkisstjórnarborðinu. Ég skal ekkert undanskilja Samfylkinguna með það því að hún þurfti að losna við einn ráðherra þar, hv. þm. Árna Pál Árnason, og hefur hann sagt sig frá þessari þingsályktunartillögu og styður hana ekki. Eins er með hv. þm. Jón Bjarnason sem var hent út úr ríkisstjórn og hefur hann nú lýst sig andsnúinn þessari þingsályktunartillögu.

Málið er fyrst og fremst pólitískt. Þetta er pólitískt mál til að halda lífi í ríkisstjórninni svo að ráðherrarnir geti hangið örlítið lengur í stólum sínum. Það er ekki verið að hugsa um þjóðarhag. Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur aldrei (Forseti hringir.) hugsað um þjóðarhag Íslendinga heldur einungis stólana sem meðlimir hennar sitja í.