140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:19]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég get til dæmis ekki séð það fyrir mér að nýtingu á sjávarútvegsauðlindinni sé stýrt úr umhverfisráðuneytinu, mér fyndist það glapræði. Mér finnst rétt að Hafrannsóknastofnun sé undir sjávarútvegsráðuneytinu og að það hafi lokaorðið um í hvaða mæli menn sækja fisk úr auðlindinni. Það geti þá hreinlega verið lögbundið að menn eigi fyrst og fremst að fylgja tillögum þessarar stofnunar. Við þurfum í sjálfu sér ekki að blanda umhverfisráðuneytinu mikið inn í það.

Varðandi sparnaðinn. Já, já, hér eru nefndar tölur sem hljóma margar alveg raunhæfar; einskiptiskostnaður við ýmsar aðgerðir, hvernig meta á umfang ráðuneyta. Ég get tekið undir það, það er ekki bara hægt að horfa á fjárlögin, það má líka horfa á starfsmannafjöldann og hægt er að meta það út frá einhverjum pólitískum forsendum hversu mikil vigt er í einstökum ráðuneytum.

Ef við tökum til dæmis velferðarráðuneytið og almannatryggingamálin er þar um að ræða málaflokk sem verðskuldar alveg sérstaka athygli einmitt vegna þess hversu gríðarlega háar fjárhæðir fara þar í gegn og hversu flókin útgreiðslan er orðin. Þetta er orðinn svo mikill frumskógur af reglum, bæði um hvaða tekjuskerðingar koma til sögunnar og eins á hvaða forsendum fólk á rétt á að sækja bætur að við höfum á undanförnum árum sett hverja nefndina á fætur annarri á fót til þess að draga úr flækjustiginu og einfalda útgreiðslu bóta úr almannatryggingakerfinu. Þær skila verkinu af sér í ágreiningi hver á fætur annarri. Nú er enn ein nefndin að störfum og mér sýnist að þar miði mjög hægt og að lítið sé að gerast þar, það eru alla vega nýjustu fréttirnar (Forseti hringir.) sem ég hef þaðan (Forseti hringir.) þannig að ekki er sú reynsla til þess að auka bjartsýni mína á þetta fyrirkomulag.