140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:22]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili út af fyrir sig þeirri skoðun með hv. þingmanni að mikil nauðsyn er á því að einfalda almannatryggingakerfið en ég er samt sem áður þeirrar skoðunar að hægt sé að gera það í því ráðuneyti sem nú heitir velferðarráðuneyti, það þurfi ekki að þvælast fyrir því.

Mig langar til að spyrja þingmanninn út í annað sem mér heyrðist hann segja að hann sakni Þjóðhagsstofnunar, ég held að ég hafi ekki heyrt rétt. Er það þá rétt skilið hjá mér sem hann sagði að hann teldi að við hefðum betur haft einhverja stofnun eins og Þjóðhagsstofnun undanfarin fimm eða sjö ár, já eða nei? Erum við sammála um að gott væri að setja svoleiðis stofnun á fót á ný?