140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:23]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef reynslu sem þingmaður frá árinu 2003 úr ýmsum nefndum, til dæmis úr fjárlaganefnd. Ég get sagt fyrir mitt leyti að ég saknaði þess í störfum mínum sem fjárlaganefndarmaður að geta ekki fengið sjálfstætt, hlutlaust mat á til dæmis efnahagslegum áhrifum fjárlaga, annaðhvort frá öflugri einingu innan þingsins sem við höfum komið okkur upp með sérfræðingum á nefndasviði, eða frá einhverri sérstakri stofnun eða eftir atvikum samkvæmt ráðgjafarsamningi sem þingið gæti til dæmis gert við Háskólann. Ég sé fyrir mér ýmsar útfærslur á þessu. Ég er almennt tregur á að mæla með nýjum ríkisstofnunum en efnislega sakna ég þess að geta ekki leitað annað en í ráðuneytin sjálf, sem lögðu málin fram á þinginu, til þess að fá hlutlaust mat á efnahagslegum áhrifum (Forseti hringir.) þeirra. Það á bæði við um fjárlögin og ýmis önnur mál sem hér hafa verið til umræðu.