140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er víða komið við. Ég hygg að það hafi nú verið óþarfi hjá hv. þingmanni að skilja eitthvað eftir óafgreitt.

Mig langar til að benda á eitt í þessu samhengi. Ég hef tilhneigingu til að horfa á málin sem fyrrverandi fjárlaganefndarmaður og hef lengi velt fyrir mér þróun innan Stjórnarráðsins og borið hana saman við þróunina í útgjöldum til Alþingis. Á sínum tíma lét ég gera úttekt á þróun útgjalda til aðalskrifstofa Stjórnarráðsins og síðan til skrifstofu þingsins og það kom ekki vel út fyrir þingið. Það kom heldur ekki vel út þegar ég kafaði aðeins dýpra í það mál og sá hversu oft er gert ráð fyrir að þingið geti sótt í aðkeypta aðstoð með sérfræðiskýrslum. Síðast þegar ég athugaði það, ég hef reyndar ekki gert það nýlega, hafði þingið 5 milljónir á ári til ráðstöfunar vegna aðkeyptrar þjónustu fyrir allar nefndir, allt nefndasviðið og væntanlega forsætisnefnd líka.

Berum það svo saman við einskiptiskostnað sem fellur til vegna sameiningar ráðuneyta, þar eru nefndar 200 millj. kr. (Forseti hringir.) Það er 40 ára uppsafnaður sérfræðikostnaður Alþingis. (Forseti hringir.) Það er nokkuð sem við ættum að hugsa um. Samhliða því að bæta stjórnsýsluna í Stjórnarráðinu eigum við skoða hér (Forseti hringir.) og taka með hugmyndir um það hvernig við getum styrkt þingið vegna þess að þingið hefur líka mjög mikilvægu hlutverki að gegna í því heildarsamhengi sem við ræðum hér.