140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:54]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans þar sem hann kom víða við og kom kannski akkúrat að þeim álitapunktum sem eru í þingsályktunartillögunni. Ég vil sérstaklega þakka þingmanninum fyrir að hafa rifjað upp ályktun af flokksráðsfundi Vinstri grænna varðandi þá áskorun að hlífa ætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og standa vörð um það á meðan á Evrópusambandsumsóknarferlinu stæði. Ég var satt best að segja, virðulegi forseti, búin að gleyma þessu en það setur málið aðeins í nýtt ljós fyrir mér, sérstaklega í ljósi þess að við vitum að Vinstri grænir eru mjög klofinn flokkur og í ljósi þess að hv. þm. Jón Bjarnason var settur út úr ríkisstjórn fyrir ekki svo alllöngu. Evrópusambandið ályktaði um það og fagnaði því að sá ráðherra væri farinn úr ríkisstjórn, sem rifjar það upp fyrir okkur að það er líklega einhver Evrópusambandslykt af þeirri þingsályktunartillögu sem liggur hér fyrir, slíkur er asinn. Líka í ljósi þess að það er margoft búið að benda stjórnarliðinu á að þessi tími til að gera umbyltingu á Stjórnarráðinu rétt fyrir kosningar á ekki rétt á sér.

Því langar mig til að spyrja hv. þm. Kristján Þór Júlíusson: Telur hann einhverjar líkur á því að það sé að beiðni Evrópusambandsins verið að færa þessi ráðuneyti til núna innan Stjórnarráðsins? Ég er þá að vísa í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, núverandi, og upptöku þessa nýja atvinnuvegaráðuneytis. Eins spyr ég um þá staðreynd að hér skuli stofna auðlindaráðuneyti, því að einungis ein auðlind okkar Íslendinga er varin samkvæmt lögum en það er fiskveiðiauðlindin okkar, engar aðrar. Er á einhvern hátt verið að koma til móts við þarfir og óskir Evrópusambandsins með þessari þingsályktunartillögu?