140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er alveg dæmalaust að horfa upp á það hvernig málum er komið nú. Það er alveg ljóst hverjir halda uppi málflutningi ríkisstjórnarinnar núna fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að halda Evrópusambandsumsókninni til streitu og ganga ansi langt í að selja skoðanir sínar í því. Það er þessi kratíski armur Vinstri grænna og það fer ekkert á milli mála. Og eins og sagt var við mig úti í bæ um daginn, formannsvandamál Samfylkingarinnar er ekkert vandamál, auðvitað tekur hv. þm. og núverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, við því starfi. Það er því alveg augljóst á hvaða vegferð þessi armur Vinstri grænna er. Á meðan eru þeir þingmenn sem enn hafa samvisku og þrek til að standa á móti þessari Evrópuvæðingu Íslands útskúfaðir. Þeir eru settir út úr ríkisstjórn, þeir eru jafnvel reknir úr þingflokknum og þeim armi í flokknum er raunverulega gert allt til miska.

Við skulum ekki gleyma því að hæstv. innanríkisráðherra var nú einu sinni hent út úr ríkisstjórn þó að hann hafi fengið að koma inn í skjólið aftur, líklega gegn einhverju loforði um að standa þá við hlið ríkisstjórnarinnar.

Þetta er athyglisvert að skoða í ljósi þingsályktunartillögunnar, sérstaklega vegna þess að markmiðið með þessari sameiningu er ekkert annað en að sameina. Það er tekið sérstaklega fram í greinargerðinni að ekki eigi að vera fjárhagslegur ávinningur af þessum breytingum. Það er sérstaklega tekið fram í greinargerðinni að allir starfsmenn allra stofnana og ráðuneyta eiga að halda sinni vinnu þannig að það er enginn fjárhagslegur ávinningur af þingsályktunartillögunni, aðeins kostnaður. Bara húsnæðiskostnaður á að hlaupa á milli 150–250 milljónir við breytingarnar, 100 millj. kr. bil er þarna á milli.

Virðulegi forseti. Ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherrar gætu komið hér og sagt okkur þingmönnum út á hvað þetta mál raunverulega gengur (Forseti hringir.) fyrst ekki á að vera sparnaður af þessu á þeim mikla niðurskurðartíma sem við búum nú við.