140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:10]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður sagðist vilja minni togstreitu og meiri skilning. Við getum örugglega verið sammála um það.

Ég er ekki þeirrar skoðunar að þó svo að einhverjar tvær stofnanir séu til náist síður skilningur en með því fyrirkomulagi að við séum með eina stofnun. Ég tel þvert á móti að ákveðin hætta felist í því að steypa öllu í sama mót undir sama hatt. Ég er þeirrar skoðunar að betra sé að hafa fleiri fjölbreytt sjónarmið, sérstaklega á sviði auðlindanýtingar, til að leiða saman ólíka nálgun vegna þess að það eru engin algild sannindi í þessum fræðum. Hættan við að setja þetta allt undir einn hatt og ætla sér að búa til einhverja eina alltumlykjandi stefnu liggur líka í því að menn taki sér þá eitthvert alræðisvald í stað þess að ýta undir ólíkar skoðanir.

Það er eitt atriði sem ég vil líka nefna rétt í lok síðara andsvars míns. Það lýtur að þeim markmiðum sem eru sett fram um að ekki skuli spara fé með þessu. Það vakti mig til umhugsunar um að tiltölulega lítið hefur verið rætt um fjármála- og efnahagsráðuneyti í umræðu hv. stjórnarliða og þeirra sem mæla fyrir þessum breytingum. Það kann að liggja í því að menn vilji forðast umræðuna um það ráðuneyti því að það er verr undirbúið en hin. Það er með ólíkindum að ætla sér að færa efnahagsráðuneytið inn í fjármálaráðuneytið ef menn ætla sér að styrkja það og bera því við að ekki hafi verið til fjármunir til að styrkja það í núverandi mynd. Ætla menn að koma verkefnum þess fyrir í nýju ráðuneyti án þess að styrkja það með fjárframlögum? (Forseti hringir.) Ég sé ekki hvernig þetta á að geta gengið upp án þess en að það kalli á aukið fé og þá eiga menn að ræða það undir þeim formerkjum.