140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:33]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður vísaði til samþykktar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs frá flokksráði sem haldið var á Akureyri 15. og 16. janúar 2010 þar sem skorað var á stjórn og þingflokk VG að áform um endurskipulagningu Stjórnarráðsins verði endurskoðuð í ljósi breyttra aðstæðna og yfirfarin áður en frekari skref yrðu tekin.

Þarna var sérstaklega, eins og hv. þingmaður kom inn á, verið að vísa til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Eins og hv. þingmaður gat um einnig hefur þetta ráðuneyti og þær atvinnugreinar sjávarútvegs og landbúnaðar sem undir það heyra gegnt lykilhlutverki við endurreisn atvinnulífsins og þjóðlífsins eftir efnahagshrunið sem varð í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og síðan Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem gaf lítið eftir í því að fylgja því hruni eftir, eins og öllum er í fersku minni. Það eru einmitt þessir lykilatvinnuvegir sem hafa borið hitann og þungann af endurreisninni.

Jafnframt var send umsókn um aðild að Evrópusambandinu þvert gegn vilja fólks einmitt í þessum atvinnugreinum. Það var mat flokksráðsins þá að við þær aðstæður, með Evrópusambandsumsóknina í gangi, bæri að fresta eða a.m.k. endurskoða áformin um að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og fella það inn í iðnaðarráðuneytið. Þetta er jú hin sterka ímynd Íslands, þessar atvinnugreinar, þó að það eigi margar aðrar góðar ímyndir, en ímyndin og baráttan gegn aðild að Evrópusambandinu er einmitt að kristallast þarna. (Forseti hringir.) Þessi samþykkt stendur enn af hálfu flokksráðs Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs (Forseti hringir.) og fyrir hana stend ég.