140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:45]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það voru einkum tvær spurningar sem hv. þingmaður beindi til mín og sneru annars vegar að atvinnuuppbyggingu og hins vegar hvort maður sæi einhvern snefil af því í þessari tillögu. Ég vil segja að tillagan er á engan hátt til þess fallin að ýta undir nokkra atvinnuuppbyggingu í landinu. Maður hefur séð það að ef ríkisstjórnin ýtir undir einhverja atvinnuuppbyggingu þá er það helst hjá skrifræðisbákninu, hjá embættismönnunum og hjá öllu því pappírskerfi sem þar er.

Gott dæmi sem hefur verið í umræðunni nýverið er skeldýraræktin. Það er tiltölulega einföld atvinnugrein sem byggir á því að setja kaðal út í vatn og svo setjast á hann kræklingar. En menn þurfa að sækja um leyfi hjá átta ríkisstofnunum til að fá heimild til að setja kaðal út í vatn og leyfa kræklingum að setjast á hann. Það er náttúrlega mikil atvinnuuppbygging fólgin í skrifræði en ekki raunveruleg verðmætasköpun. Verðmætasköpunin felst í kræklingnum sem sest á kaðalinn en ekki í öllum þeim embættismönnum sem vinna við leyfisveitingar, eftirlit og annað því um líkt.

Það er mjög alvarlegt að ríkisstjórnin, og maður sér það í tillögunni, virðist vera algjörlega upptekin af því að flækja allt, gera alla hluti flókna og auka skrifræði á öllum sviðum. Þessi tillaga ýtir svo sannarlega undir það.

Svo ég komi að seinni spurningunni, þegar hv. þingmaður fjallaði um að ríkisstjórnin sjái dýrlegar kökur og kræsingar í drullukökum. Ég vil kannski ekki taka svo djúpt í árinni en hins vegar er alveg ljóst að ef lesin er greinargerð með þingsályktunartillögunni virðist hæstv. forsætisráðherra vera að reyna að fjalla um hvernig hún vilji sjá hlutina, hvernig eigi að auka skilvirkni og annað, en þingsályktunartillagan og allar tillögur sem koma fram hjá ríkisstjórninni eru því miður til þess fallnar að hið gagnstæða gerist. Það kom fram hjá þeim gestum sem komu fyrir nefndina, og er mjög bagalegt að við skulum ekki hafa umsagnir margra þeirra, (Forseti hringir.) því að þeir voru akkúrat að fjalla um málin á þeim nótum sem ég var að lýsa.