140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:18]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Hann ræddi um hagsmunina í ræðu sinni, að þeir væru gagnstæðir, eins og í auðlinda- og umhverfisráðuneytinu. Ég get tekið undir það með honum.

Mig langar hins vegar aðeins að heyra frá hv. þingmanni hvort hann telji ekki að í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti eigi hið sama eftir að gerast hvað varðar t.d. verslun og landbúnað sem var tekist hart á um og deilt meðal annars um innflutning á hráu kjöti, hvort þessir hagsmunaárekstrar geti ekki átt sér stað þar líka.

Í ljósi þess að valdatími þessarar ríkisstjórnar er orðinn ansi stuttur, þrjú ár liðin síðan hún tók til starfa, að þetta skuli koma svona seint fram. Maður veltir því fyrir sér hvort þetta sé virkilega forgangsverkefni og hvort ályktun Evrópuþingsins, sem hljómaði einhvern veginn: Gott hjá ykkur að losa ykkur við hæstv. ráðherra! — þá Jón Bjarnason — hafi einfaldlega verið hvatning til að halda þessu áfram. En í ljósi þess hve valdatíminn er stuttur hefði samstaða við stjórnarandstöðuna, sem væntanlega og vonandi mun taka við völdum eftir kosningar, þá ekki verið nauðsynleg?

Svo langar mig í lokin að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi einhverja hugmynd um afstöðu Hreyfingarinnar í þessu máli. Nú hafa þingmenn hennar ekkert tjáð sig, hvorki í fyrri umræðu né í þessari, og ég hef ekki séð þá á mælendaskrá. Fjarvera Hreyfingarinnar í þessu máli er ákaflega sérstök og mig langar að forvitnast hjá hv. þingmanni um hvort hann hafi einhverja hugmynd um það. Nú er ljóst að þingmaður þeirra, hv. þm. Margrét Tryggvadóttir, skrifar undir þetta mál. Skyldu þeir hafa gengið í eina sæng með ríkisstjórninni?