140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:25]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Um þetta vil ég segja að það hlýtur að vera þannig að maður reyni allt sem maður getur til að ná samstöðu með félögum sínum áður en maður ber fram mál.

Það er reyndar ekki rétt hjá hv. þingmanni að ég hafi haft reynslu af pólitísku starfi eða þessu umhverfi vegna þess að ég hóf mitt pólitíska starf einungis í febrúar 2009 og var síðan kosinn á þing í apríl og hafði aldrei áður verið í pólitísku starfi. Ég hafði reyndar verið efnahagsráðgjafi forsætisráðherra um tveggja mánaða skeið í bankahruninu og þar var allt annað andrúmsloft en þetta. Þar voru menn ekki stöðugt í deilum hver við annan. Þar reyndu menn að vinna samhentir að hlutunum.

Ég hefði talið að í öllu starfi, hvort sem er pólitísku eða öðru starfi, þyrfti að vera samstaða vegna þess að mál sem eru keyrð í gegn án samstöðu ná ekki því máli sem þarf til að þau virki sem skyldi. Ég get því alveg fullvissað hv. þingmann um að ég deili þeim skoðunum með honum.

Hvað varðar hæstvirta ráðherra, sem báðir eru fyrrverandi núna, efnahags- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, held ég að ræða mín sem ég flutti áðan sé næstum því samhljóma eða að minnsta kosti samkynja ræðu hæstv. fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra um þá vanhugsun, í raun og veru, að dreifa starfsemi fjármálamarkaðar á þá staði sem verið er að gera.