140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:32]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér í síðari umr. tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Ég verð að taka undir með æðimörgum sem hér hafa talað, mér þykir sérkennileg sú forgangsröðun mála sem stjórnarmeirihlutinn á Alþingi óskar eftir að tekin séu fyrir og forseti þingsins verður við. Ég teldi að það væri margt brýnna fyrir okkur að ræða nú en breytingar á Stjórnarráðinu. Engu að síður ræðum við hér breytingar á Stjórnarráðinu og ég vind mér í það.

Mig langar að skoða hvað liggur að baki þessari þingsályktunartillögu og til hvers menn horfðu einkum, annars vegar kosti og hins vegar galla þess að sameina ráðuneyti.

Þegar viðfangsefni ráðuneyta voru skoðuð út frá því að sameina þau voru kostirnir sem unnið var út frá þessir: Í fyrsta lagi fagleg samlegð, þ.e. bætt nýting sambærilegrar sérfræðiþekkingar og auknir möguleikar á sérhæfingu einstaklinga og skipulagseininga. Í öðru lagi þörf fyrir samhæfingu, þ.e. bætta yfirsýn og skýra ábyrgð á samspili ólíkra viðfangsefna, stofnana og stjórntækja.

Gallarnir sem unnið var út frá voru þessir: Í fyrsta lagi að hlutverkaárekstur kynni að verða, þ.e. að sami aðili gegni samfélagslegum hlutverkum sem fari illa saman, því að grunnhagsmunir þeirra væru andstæðir. Í öðru lagi að hætta væri á takmörkun á gagnsæi og fjölræði, þ.e. að einn aðili einoki þekkingu og stefnumótun og njóti takmarkaðs ytra aðhalds.

Ef við lítum svo til sameiningar ráðuneyta er í þessu tilviki ætlunin að leggja saman í eitt ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, iðnaðarráðuneytið og um það bil helming af starfsemi efnahags- og viðskiptaráðuneytis. Til verður nýtt ráðuneyti sem nefna skal atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Menn verða í þessu sambandi að spyrja sig um hagsmuna- og hlutverkaárekstra í viðkomandi ráðuneyti ef upp kemur ágreiningur sem greiða þarf úr.

En ef við þurfum í kjölfarið á þessum breytingum að breyta enn frekar lögum, verður það þá gert á þessu vorþingi? Áætlun núverandi ríkisstjórnar er að þessi framkvæmd komi til 1. september. Þá hlýtur allt að þurfa að vera nokkuð ljóst sem lýtur að lögum, sérlögum og öðru er fellur að núverandi ráðuneytum, sem síðar verða felld undir eitt og sama ráðuneytið.

Einnig er lagt til að helmingur af efnahags- og viðskiptaráðuneytinu sameinist fjármálaráðuneyti og nýtt nafn verði fjármála- og efnahagsráðuneyti. Það var árið 2009 sem þessu var breytt í efnahags- og viðskiptaráðuneyti og voru efnahagsmál og Seðlabankinn færð úr forsætisráðuneytinu undir efnahags- og viðskiptaráðuneytið. Samkvæmt gildandi lögum er yfirstjórn Seðlabanka Íslands í höndum efnahags- og viðskiptaráðherra. Með því að færa Seðlabankann undir fjármála- og efnahagsráðuneytið hlýtur að þurfa að breyta lögum um Seðlabanka. Þá verður enginn efnahags- og viðskiptaráðherra til og þar af leiðandi er alveg ljóst að við þurfum að breyta þeim lögum.

Ég hef nú kannski minni áhyggjur af því en ég velti hins vegar upp þeirri spurningu hvernig það fari saman að Seðlabankinn, sem á meðal annars að veita fjármálaráðuneytinu aðhald í peningamálum og í opinberum fjármálum, heyri stjórnsýslulega undir ráðuneytið. Þessum spurningum er enn ósvarað og ég sé ekki annað en að sá galli sem nefndur var hér áðan, og kallast hlutverkaárekstur, geti orðið allhressilegur. Seðlabankinn á að veita fjármálaráðuneytinu aðhald í peningamálum og opinberum fjármálum en heyrir stjórnsýslulega undir ráðuneytið. Þar fara grunnhagsmunir mjög illa saman og eru andstæðir.

Mér finnst líka skorta á það í þessari þingsályktunartillögu, og í greinargerðinni sem liggur að baki, að það sé skilgreint hvernig eftirlitsrammi fjármálamarkaðarins eigi að líta út. Við ætlum að vera með fjármálafyrirtækin undir atvinnuvegaráðuneytinu, en hvernig ætlum við að láta eftirlitsrammann líta út?

Við höfum farið hér af stað með lög um neytendalán þar sem húsnæðislán borgara þessa lands eiga að kallast neytendalán — sem er einstakt hér og kallast það ekki víðast hvar annars staðar. Hvernig á ramminn með fjármálamarkaðnum að vera? Hverra er að sinna neytendavernd? Er það hlutverk Fjármálaeftirlitsins sem ber að gera það samkvæmt lögum í dag? Og Neytendastofa hins vegar. Hvernig ætlum við að hafa eftirlit með fjármálamarkaðnum og eftirlitsrammann? Af hverju fara menn ekki í þá grunnvinnu áður en allar þessar tilfærslur eiga sér stað? Hvað liggur að baki því? Hér hrundi heilt bankakerfi. Við höfum rætt það margsinnis að menn hafi gengið á svig við lög og að þurft hefði að efla eftirlitið og að við hefðum þurft að gera ýmislegt annað en við gerðum þá. Það er ekki nóg að fjölga fólki ef ramminn sem fjármálamarkaðurinn á að vinna innan er ekki nægjanlega skýr.

Ég tel, virðulegur forseti, að þarna skorti verulega á að við séum að gera það sem við ættum að gera áður en við förum í þennan flutning verkefna á milli ráðuneyta.

Ég er ekki að varpa þeirri skoðun algjörlega fyrir róða að efnahagsmál og ríkisfjármál geti hugsanlega verið undir einu og sama ráðuneytinu, en ég held að þá hljóti að þurfa að horfa til þess, eins og hefur reyndar komið fram í umræðunni, að innan sama ráðuneytis geti verið einn eða fleiri ráðherrar. Þá veltir maður því fyrir sér hvort um verði að ræða höfuðráðherra og síðan undirráðherra. Einn af göllunum sem tilteknir eru er sá að takmörkun verði á gagnsæi og fjölræði ef einn aðili einoki þekkingu og stefnumótun og njóti takmarkaðs ytra aðhalds. Ég held að þetta þurfi að skoða betur.

Ég gæti alveg fallist á það að innan sama ráðuneytis væru þrír ráðherrar sem hefðu kannski áþekka og jafna stöðu innan ráðuneytis þannig að ekki yrði togstreita þar á milli og sæju um einstaka málaflokka, en ég skil hins vegar að það sé vart hægt vegna þess að einn yrði að vera samhæfingaraðili í efra lagi. Þá erum við komin með grunnbreytingu á því stjórnskipulagi sem við höfum haft hér, að það er einn ráðherra í hverju ráðuneyti og síðan fara deildarstjórar eða skrifstofustjórar með einstök verkefni. Við erum kannski að horfa til þess eins og er í Svíþjóð, ef ég man rétt, þar sem ráðuneytin skiptast í skrifstofu forsætisráðherra og síðan níu deildir eða ráðuneyti og þar er öll stjórnsýsla og rekstrardeild sameiginleg. Kannski er verið að velta einhverju slíku fyrir sér, að næstu skref í breytingu á Stjórnarráðinu verði í þá veru.

Virðulegur forseti. Ég kem svo hér að umhverfisráðuneytinu sem menn sjá fyrir sér að setja nýtt nafn á og kalla umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Ég velti því fyrir mér hvort þar eigi að fara saman rannsóknir, nýtingarstefna og verndun. Um það hljóta að vera skiptar skoðanir. Hér liggja allar auðlindir undir; orkan, vatnið, jarðvarminn, fiskur í sjó og vötnum, landið sjálft og náttúran. Ef rannsóknir, nýtingarstefna og verndun á að vera á einni hendi, hverra er þá eftirlitið? Í mínum huga fer þetta ekki saman.

Hér hefur verið vísað til þess að þær breytingar sem verið er að gera séu í takti við það sem er á öðrum Norðurlöndum. Hvað varðar umhverfis- og auðlindaráðuneytið er það rangt vegna þess að á öllum Norðurlöndunum er umhverfisráðuneytið eitt og sér og afmarkað. Sú hugmynd að hafa umhverfis- og auðlindaráðuneyti er íslensk uppfinning. Umhverfisráðuneyti á öllum Norðurlöndum starfar eitt og sér og það er mín skoðun að svo eigi að vera. Umhverfisráðuneytið er mikilvægt ráðuneyti fyrir margra hluta sakir og meðal annars vegna þess að það sinnir ákveðnu eftirlitshlutverki. En því tekst varla að sinna eftirlitshlutverki með sjálfu sér ef það á að sinna því sem ætlast er til í þessari tillögu.

Virðulegur forseti. Pólitísk markmið og markmið stefnumótunar fara ekki endilega saman. Það er alveg ljóst að fækkun ráðuneyta er í sjálfu sér í góðu lagi. En mér finnst að því markmiði þurfi að fylgja sýnileg markmið stefnumótunar og ég get ekki séð að slíkt sé að finna í þessari þingsályktunartillögu.

Sá ráðherrakapall sem verið hefur í gangi í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er hluti hinna pólitísku markmiða. Flestum er hins vegar ljóst að tíð ráðherraskipti draga úr stöðugleika, jafnt hinum efnahagslega sem og stöðugleika í stjórnsýslunni. Höfum í huga tvennt sem kom fram í rannsóknarskýrslu Alþingis, þ.e. að okkur bæri að breyta hinni pólitísku hefð og umræðu og vinna með öðrum hætti og að verulega þyrfti að styrkja stjórnsýsluna. Með þeim sífelldu breytingum á Stjórnarráðinu sem átt hafa sé stað á þessu kjörtímabili erum við ekki að efla stöðugleika stjórnsýslunnar.

Við erum eiginlega að ganga í þveröfuga átt. Það er dapurlegt og það er vont. Hvort tveggja er vont að við drögum með þessu úr stöðugleika í efnahagslífi og stöðugleika í stjórnsýslunni, vegna þess að við glímum við afleiðingar efnahagshruns, við glímum við atvinnuleysi og við glímum við vonleysi. Við glímum við það í þessu landi að ráðstöfunartekjur hafa dregist saman þó að ólíkt sé eftir tekjuhópum. Við glímum við skuldavanda heimila og fyrirtækja. Þó svo að við dóm um ólögmæti gengistryggðra lána hafi hagur einhverra vænkast sitja þeir eftir sem eru með verðtryggðu lánin og við höfum enn lítið sem ekkert gert fyrir þá, að minnsta kosti ekki í þeirri stóru stofnun sem heitir Íbúðalánasjóður.

Í nefndum hér í þinginu liggja frumvörp og þingsályktunartillögur sem gætu komið einhverjum lántakendum til góða, en þau fást varla rædd hvað þá afgreidd, vegna þess að forgangsröðun stjórnarmeirihlutans á Alþingi Íslendinga er með afbrigðum sérstök.

Virðulegi forseti. Ég tel að þessi þingsályktunartillaga eigi ekki að hljóta neinn forgang hér á þinginu á þessu vori. Mér finnst mörg önnur mál brýnni og er tilbúin að taka umræðu um þau þegar tækifæri gefst. Ég furða mig mjög á því að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar skuli vera á þennan veg, nema verið sé að draga athyglina frá því sem meginmáli skiptir að ríkisstjórninni hafi ekki tekist að koma hjólum atvinnulífsins af stað og að henni hafi ekki tekist, eins og við flest höfðum vonað, að koma til móts við skuldug heimili og fyrirtæki á þann hátt að þess sjái stað og fólk finni það á eigin skinni.

Ríkisstjórnin talar hins vegar á þann veg að henni hafi nánast tekist hið ómögulega, henni hafi tekist að bjarga íslenskri þjóð úr rústum efnahagshrunsins, hér horfi allt til betri vegar. Ég segi, virðulegur forseti, við þá ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutann: Þeir sem hafa þá skoðun ættu að óska eftir því að fá að leggja verk sín í dóm þjóðarinnar með von um hagstæð úrslit sér til handa og að loknum kosningum að hefja vegferðina við slíkar breytingar sem hér eru lagðar til.

Mér finnst þessi tímasetning fáránleg. Með því er ég ekki að segja að ríkisstjórnin, með þá skipan í Stjórnarráðinu sem nú er við lýði, hafi í öllu staðið sig illa, það væri ósanngjarnt. Hins vegar er það svo að í pólitík kunna markmiðin að vera þau sömu og það hlýtur að vera hlutverk okkar og sýn að reisa íslenskt samfélag við á ný eftir efnahagshrunið, en leiðir að því markmiði eru ólíkar. Þar fara pólitískar skoðanir mínar og núverandi ríkisstjórnar ekki saman. Þess vegna finnst mér sá forgangur sem stjórnarmeirihlutinn setur hér á þingi, meðal annars með þessari þingsályktunartillögu, vera rangur eins og málin standa í dag.