140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:52]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu og þau sjónarmið sem þingmaðurinn reifaði hér. Ég tek undir með henni þegar kemur að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Það er náttúrlega mjög sérstakt að við skulum horfa upp á fjölda mála sem liggur fyrir þinginu og hefur raunar gert — það er ekki í fyrsta skipta á þessu kjörtímabili sem fjöldi mikilvægra mála, að maður hefði haldið, sem skipta fyrirtæki og heimili miklu máli, liggur fyrir á meðan ríkisstjórnin virðist keppast við það eitt að ná í gegn breytingum og hringla í Stjórnarráðinu, flutningi stofnana og annað því um líkt.

Þetta vekur óneitanlega upp þær spurningar sem hv. þingmaður reifaði í máli sínu um hvað búi þar að baki. Er verið að reyna að draga athyglina frá vandræðagangi ríkisstjórnarinnar á öðrum sviðum? Er verið að reyna að breiða yfir framtaksleysi þegar kemur að því að taka á málefnum skuldsettra heimila til dæmis? Eða á atvinnumálunum? Þær spurningar vakna óneitanlega.

Það er annað sem mig langar að spyrja hv. þingmann um, sem kom kannski ekki nægilega skýrt fram í máli hennar eða hefur farið fram hjá þeim er hér stendur. Nú er einungis ár til kosninga, hvað finnst hv. þingmanni um það að ríkisstjórnin ætli einungis ári fyrir kosningar að gera gríðarlega miklar breytingar á Stjórnarráðinu, á skipan ráðuneyta, í andstöðu við marga umsagnaraðila og sérstaklega í ljósi þess þegar fyrir liggur, eins og margir hafa bent á, að ekkert útlit er fyrir að þessi ríkisstjórn haldi meiri hluta eftir næstu kosningar? Eru breytingar á Stjórnarráðinu ekki mál sem ætti fremur að vinna í upphafi kjörtímabils eða fyrri hluta kjörtímabils en svona á seinustu metrunum þegar maður skyldi ætla (Forseti hringir.) að önnur mál ættu að vera uppi?