140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:57]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get fallist á það með hv. þingmanni að að mörgu er að hyggja í þessum efnum og sérkennilegt að þingsályktunartillagan hafi ekki verið send út til umsagnaraðila. Þess var nú reyndar getið í greinargerðinni að samráð hafi verið haft eða samvinna og aðilar spurðir, en það hefði verið fróðlegt fyrir þingmenn sem ekki stóðu að þessari undirbúningsvinnu að hlusta á þá sem eiga síðan að heyra undir og vinna með ráðuneytunum eftir þær breytingar sem þessi skipan gerir ráð fyrir, hvernig þeir sjá þetta fyrir sér og hvað þeir hefðu að segja um þær breytingar almennt.

Einhverra hluta vegna ákveður stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að gera það ekki. En ég verð, virðulegur forseti, með fullri virðingu fyrir þeirri nefnd að segja að mér finnst líka vinnulagið í henni svona almennt vera frekar sérstakt.