140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:59]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir ágæta ræðu. Mig langar til í þessu andsvari að spyrja hv. þingmann þar sem það hefur komið fram hjá stjórnarliðum og oft hefur verið vísað til þessa mikla plaggs hérna, skýrslu þingmannanefndarinnar sem við hv. þingmaður sátum bæði í — það er eitthvað að tímamælingunni, vonandi verður látið vita af því.

(Forseti (UBK): Forseti mun láta hv. þingmann vita.)

Í stjórnsýslukaflanum á bls. 11, frú forseti, er fjallað um að gera þurfi breytingar á lögum og talið upp meðal annars „endurskoðun á stjórnsýslulögum, upplýsingalögum og lögum um Stjórnarráð Íslands.“

Síðan er fjallað um hvað hafi farið úrskeiðis og sagt að þingnefndin ítreki ábyrgð fagráðherra, og jafnframt er sagt, með leyfi forseta:

„Þá verði verklag innan ráðuneyta samræmt sem og skráning samskipta og skýrt sé með hvaða hætti ráðuneyti hafi eftirlit með þeim sjálfstæðu stofnunum sem undir þau heyra. […]

Jafnframt er nauðsynlegt að skýrt verði hvaða stofnun sé ætlað það hlutverk að hafa heildaryfirsýn yfir kerfisáhættu, fjármálalegan stöðugleika og bera ábyrgð á að samræma viðbrögð. […] Þá bendir þingmannanefndin á að brýnt er að í ráðuneytum sé til staðar sú fagþekking og reynsla sem nauðsynleg er til að sinna þeim verkefnum sem ráðuneytum ber.“ Og fleira kemur hérna fram.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann með tilvísan til þingsályktunartillögunnar sem ég veit að er í góðu minni hjá hv. þingmanni um þann lista sem þar er gefinn upp að eigi að endurskoða, hvort einhvern tímann í vinnu þingmannanefndarinnar hafi verið fjallað um það að mikilvægt væri að fækka ráðuneytum. Það að endurskoða lög um Stjórnarráðið hafi snúist fyrst og fremst um að fækka ráðuneytum, að stækka þau, (Forseti hringir.) að hræra til og frá með stofnanir, ekki síst þær sem heyra undir fjármálalegan stöðugleika, eða hvort það hafi fyrst og fremst vakað fyrir þingmannanefndinni að skýra einstök ákvæði (Forseti hringir.) í Stjórnarráðinu þannig að fagleg ábyrgð væri skýr og það væri ljóst hvaða verkefni heyrði til hvar.