140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:16]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil koma hingað upp og staðfesta það sem hv. þingmaður og þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Ragnheiður E. Árnadóttir, sagði að eftir þá uppákomu sem varð hér í morgun buðum við það að kallaðir yrðu saman formenn þingflokka og farið yfir það hvort ekki væri skynsamlegt að breyta dagskrá þingsins og forgangsraða með öðrum hætti þannig að þau brýnu mál sem svo sannarlega liggja fyrir þinginu gætu komið til 1. umr., klárast og farið til nefnda í næstu viku. Því miður verður að staðfesta það að ekki var vilji til þess hjá stjórnarþingflokkunum. Þess vegna heldur umræðan um Stjórnarráðið áfram eins lengi og þurfa þykir. Og það er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Hún hafnaði því að greiða fyrir þingstörfum, og koma málum sem eru hér á dagskrá, 5. til 15. dagskrármáli, mörg þeirra eru mikilvæg mál, auk þó nokkurra annarra mála, áfram inn í kerfi þingsins. Þetta er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.