140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:18]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér fengum við dæmi um það hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur hvernig hægt er að snúa hlutunum algerlega á hvolf. Þingmenn stjórnarflokkanna hafa verið að gagnrýna okkur fyrir einhvers konar málþóf í þessu máli sem umræðan hefur þó ekki staðið lengur um en raun ber vitni.

Í framhaldi af þeirri ömurlegu umræðu sem varð þegar við hófum þingfund í morgun var tekin ákvörðun um að greiða fyrir þingstörfum, bjóða stjórnarflokkunum að taka inn 15 mál, þar á meðal það mál sem hv. þingmaður nefndi áðan í ræðustól, og afgreiða þau til nefnda, 15 þingmál. Nei, því var hafnað. Hér er búið að snúa öllu á hvolf.

Það er alveg ljóst hver forgangsröðun ríkisstjórnarflokkanna er og alveg ljóst að samningsvilji er enginn í herbúðum þeirra, enginn. Svo geta menn staðið hér og gagnrýnt stjórnarandstöðuna fyrir þetta mál sem mjög djúpstæður ágreiningur er um, við höfðum hugsað okkur að tala þannig í því að málflutningur (Forseti hringir.) okkar kæmist til skila. En við buðum það fram að þessari umræðu um málið yrði frestað á meðan greitt yrði fyrir (Forseti hringir.) 15 málum sem við teljum vera brýn og koma þeim í gegnum þingið og til nefnda. Nei, því var hafnað. Þetta eru vinnubrögð ríkisstjórnarflokkanna, virðulegi forseti.