140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:20]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Um það mál sem við höfum verið að ræða er gríðarlegur ágreiningur. Tveir fyrrverandi hæstv. ráðherrar eru mótfallnir málinu og hafa gert alvarlegar athugasemdir við það, þ.e. tveir fyrrverandi hæstv. ráðherra og núverandi hv. þingmenn, (Gripið fram í: Stjórnarþingmenn.) stjórnarþingmenn, hafa gert alvarlegar athugasemdir við málið og gerð hefur verið alvarleg athugasemd við að það skuli ekki hafa fengið eðlilega þinglega meðferð, það hafi meðal annars ekki farið út til umsagnar.

Ég held að vísa verði öllu sem kemur fram hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur til föðurhúsanna. Hér eru menn að sýna fullan vilja til að taka mál á dagskrá, m.a. húshitunarmálið sem hv. þingmaður hefur nefnt ítrekað í dag, (Gripið fram í.) og taka út af dagskrá mál sem gríðarlegur ágreiningur er um, engin samstaða, og hefur því miður ekki fengið eðlilega meðferð í þinginu meðal annars undir forustu (Forseti hringir.) stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem hefur neitað að senda málið út til umsagnar og keyrt málið út (Forseti hringir.) á allt of skömmum tíma.