140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:21]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Rétt er að það komi fram hérna vegna þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað varðandi meint samningstilboð stjórnarandstöðunnar og samkomulag um lausn á þeirri dagskrá sem er hér í dag, þ.e. að ljúka henni með einhverjum hætti. Þar var í raun og veru ekki um samningstilboð að ræða heldur tilkynningu sem ekki var hægt að semja um að öðru leyti en því sem kom fram frá formanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins og varaformanni þingflokks Framsóknarflokksins, þar á meðal varðandi það mál sem við erum að ræða núna og síðasta mál á dagskrá. Þannig að það komi alveg skýrt fram að sérstaklega var tekið fram af þeirra hálfu að þau mál væru ekki umsemjanleg.

Að öðru leyti var ágætlega tekið í tilboð þingflokksformanna tveggja og þau rædd í fullu bróðerni. En ef fólk ætlar að semja um slík mál, samningar eru á milli aðila sem annaðhvort deila eða eru að ná einhverju samkomulagi en ekki einhliða tilkynning eins og þarna var um að ræða því miður.