140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hún er óskapleg þessi viðkvæmni og sýnir að sannleikanum verður hver sárreiðastur. (Gripið fram í.) Ég ætla aðeins að rifja upp, ef hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir gæti gert svo vel og gefið mér frið til að tala þessa einu mínútu sem ég hef, að umræðan um stjórnarskrármálið sem menn kvarta mikið undan hér, aðrir en ég, var ekki hafin síðastliðinn mánudag þegar hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar tóku sig til og tóku öll mál sem þá voru á dagskrá í gíslingu og hleyptu aðeins einu máli af þeim 15 sem þeim núna þykja mjög brýn í gegn. Þeir stoppuðu þetta ágæta umrædda mál um húshitunarvanda á köldum svæðum, gátu ekki einu sinni klárað það. Nú heitir það að þetta séu allt saman mjög brýn mál og menn hafi komið með tilboð um að afgreiða þau. Af hverju var það ekki gert á mánudag? Frú forseti. Mér finnst þetta ekki mjög trúverðugt.