140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[19:04]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er hárrétt sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson talar hér um, það er svolítið sérkennilegt að stundum er til nægur peningur og stundum enginn. Til dæmis hefur alveg örugglega verið til peningur fyrir töluverðri ráðgjafarvinnu í aðdraganda þessa máls, bæði varðandi auðlinda- og umhverfisráðuneyti og þá vinnu sem virðist hafa átt sér stað veturinn 2010–2011 í því sambandi. Svo hefur hún eitthvað kostað þessi sérfræðingavinna í janúar og febrúar vegna efnahags- og viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis svo að maður tali ekki um að menn eru tilbúnir til að setja háar fjárhæðir í húsnæðiskostnað, eiginlega breytingar hvað eftir annað á því sviði. En þegar kemur að því til dæmis að efla nefndasvið hér á þingi og efla möguleika þingsins til að ráða sérfræðinga til starfa þá er ekki til nokkur einasti eyrir til að setja í slík verkefni.