140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[19:06]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór í ræðu minni áðan aðeins yfir skýrslu þingmannanefndarinnar þar sem helsta niðurstaðan var sú, og það kom reyndar fram í rannsóknarskýrslu Alþingis, að nauðsynlegt væri að styrkja Alþingi. Aftur á móti setti hæstv. forsætisráðherra strax á laggirnar starfshóp um hvernig ætti að styrkja framkvæmdarvaldið. Það er nokkuð augljóst að það hefur orðið ofan á hjá þessari ríkisstjórn á þessu kjörtímabili að styrkja framkvæmdarvaldið.

Mest sýnist mér þó reyndar að peningarnir hafi farið inn í stofnanir. Margar eftirlitsstofnanir hafa tútnað ótrúlega út en eitthvað hefur þó vonandi farið inn í ráðuneytin. Alla vega hafa verulegir fjármunir farið í þær breytingar sem gerðar hafa verið, það hefur komið fram. Og eins hafa verulegir fjármunir farið í að fá sérfræðinga til liðs við málið til að sýna fram á að það sé skynsamlegt. Ég veit til þess að ýmsir aðilar voru kallaðir til samráðs en þeir upplifðu allir að búið væri að taka allar ákvarðanir og það skipti litlu máli hverju þeir svöruðu sérfræðingahópnum.