140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[19:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á nokkra athyglisverða punkta í ræðu sinni og gerði töluvert að umtalsefni það sem oft hefur verið vitnað í með öfugmælum, sem er ekki nýtt af hálfu stjórnarmeirihlutans, þar sem verið er að vísa í skýrslu þingmannanefndarinnar. Hann rakti það hvernig einstaka hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn hefðu jafnvel ekki farið rétt með eða að minnsta kosti túlkað niðurstöður á annan veg en skilningur þeirra sem sátu í nefndinni var.

Þegar þetta var samþykkt 63:0 — sennilega eina málið á þessu þingi — höfðu menn uppi mikinn lofsöng um það að þetta þýddi ný vinnubrögð og breytt vinnubrögð og nú mundu menn læra af hruninu, styrkja þingið og þar fram eftir götunum. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort honum finnist að það markmið hafi gengið eftir.

Það er kannski nóg að rifja upp það sem gerðist hér undir störfum þingsins þegar menn voru að ræða lög um skeldýrarækt þar sem markmið löggjafans var hugsanlega annað en túlkunin á lögunum, þannig eru þessi vönduðu vinnubrögð.

Ég vil einnig fá að spyrja hv. þingmann um það sem er mjög sláandi, eins og komið hefur fram í mörgum ræðum, hringlandahátt með þessar stofnanir, sérstaklega þær er snúa að fjármálamarkaðnum. Ég vil því spyrja hv. þingmann sem á sæti í atvinnuveganefnd — menn höfðu ákveðnar efasemdir og áhyggjur af því þegar búa átti til atvinnuvegaráðuneyti og setja iðnaðarráðuneytið inn en núna koma allt í einu bankamálin og Fjármálaeftirlitið til viðbótar — hvort hann geti sagt mér skoðun sína á því hvort verið sé að stofna ráðuneyti til að færa ákveðin völd undir einstaka hæstv. ráðherra sem í þessu tilfelli er Steingrímur J. Sigfússon, hvort það sé markmiðið með þessum hringlandahætti en ekki það að styrkja stjórnsýsluna.