140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[19:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi síðustu spurningu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar þá vil ég svo sem ekki trúa því að menn séu svo skammsýnir í hugsun, þegar þeir leggjast í svo viðamiklar breytingar á stjórnkerfinu, að þeir séu að velta fyrir sér einstaka persónum í ráðuneytum. Þegar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, var látinn hætta, að því er virtist til að friðþægja hinn stjórnarflokkinn, þurfti að vísu hv. þm. Árni Páll Árnason að hætta líka og það bendir vissulega til þess að persónur spili eitthvað inn í.

Varðandi það að bæta fjármálamörkuðum og Fjármálaeftirliti inn í atvinnuvegaráðuneytið, og varðandi þá tilvísun sem hv. þingmaður var með í skýrslu þingmannanefndarinnar, þá las ég upp eina setningu og ég ætla að gera það aftur, með leyfi forseta, á bls. 11:

„Þá bendir þingmannanefndin á að brýnt er að í ráðuneytum sé til staðar sú fagþekking og reynsla sem nauðsynleg er til að sinna þeim verkefnum sem ráðuneytum ber.“

Ég verð að segja eins og er að ég á erfitt með að sjá að menn séu að byggja á fagþekkingu og reynslu með því að búa til stórt ráðuneyti, væntanlega byggt á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og iðnaðarráðuneytinu, og setja síðan fjármálageirann inn í það. Væntanlega verður slík þekking byggð upp innan ráðuneytisins og ég ætla ekki að efast um að starfsmenn Stjórnarráðsins geti það á einhverjum tíma.

Ég hef hins vegar miklar efasemdir um að skynsamlegt sé að gera það í lok kjörtímabils þegar svo mikill ágreiningur er um það og allsendis óljóst og ókannað hvort þetta sé besta leiðin. Ég bendi á að enn hefur engin stjórnsýsluúttekt farið fram á Fjármálaeftirliti og Seðlabanka og enn liggur ekki fyrir niðurstaða úr greiningarvinnu sem hv. þm. Árni Páll Árnason setti af stað í tíð sinni sem ráðherra.