140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[19:17]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er eitt af þeim lykilatriðum sem fjallað var um í þingmannaskýrslunni, svo ég taki hana nú enn og aftur til umræðu. Þar stendur að þingmannanefndin ítreki ábyrgð fagráðherra. Það stendur líka að þingmannanefndin telji að gera verði breytingar á lögum og reglum þannig að komið verði í veg fyrir að einstakir ráðherrar gangi inn á valdsvið og ábyrgðarsvið annarra ráðherra.

Varðandi Varnarmálastofnun og niðurlagningu hennar og það sem síðan fylgdi í kjölfarið þá er enn óljóst hver hefur vald og ábyrgð á því sviði. Það sama gæti orðið uppi á teningnum með verkefni sem tengjast farsýslunni og niðurlagningu Siglingastofnunar, sem við höfum ekki fjallað um hér. Eins gæti það orðið raunin varðandi allar þær stofnanir sem við fáum ekki að vita hvert eiga að fara vegna þess að ríkisstjórnin treystir sér ekki til að upplýsa um það, væntanlega til að skapa ekki meiri óróa um mál sem hún hefur ekki meiri hluta fyrir í eigin röðum. Þar með yrði breytingin ónýt fyrir fram. Ef ríkisstjórnin treysti sér síðan ekki til að fara í einhverja þá vegferð sem fyrirhuguð er, sem hún hefur heldur ekki hugsað sér að segja okkur, gæti niðurstaðan orðið tímabundið samkomulag um að viðkomandi stofnanir heyrðu undir tvö ráðuneyti. Þá kemur það ekki í veg fyrir að einstakir ráðherrar gangi inn á valdsvið og ábyrgðarsvið annarra ráðherra.

Í mínum huga er það alveg skýrt að þarna er ekki farið eftir þeim niðurstöðum við samþykktum 63:0. Svo ég endi á að vitna til þingmannaskýrslunnar verður verklag innan ráðuneyta samræmt sem og skráning samskipta og það þarf að vera skýrt með hvaða hætti ráðuneyti hefur eftirlit með þeim sjálfstæðu stofnunum sem undir það heyra. Það er sannarlega ekki skýrt ef menn vita ekki einu sinni hvar stofnanirnar eiga að vera.