140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[19:19]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög athyglisvert sem fram kemur í máli hv. þingmanns og einnig sú tilvitnun sem hann las um að koma verði í veg fyrir að ráðherrar gangi ekki hver inn á valdsvið annars. Svo ég haldi áfram með verkaskiptinguna milli utanríkis- og innanríkisráðherra varðandi öryggis- og varnarmál þá lagði hæstv. utanríkisráðherra fram þingsályktunartillögu þar sem sett var á laggirnar nefnd sem skrifa skyldi stefnu um þjóðaröryggismál. Sú stefna skyldi fjalla um umhverfisógn, farsóttir, landhelgisgæslu, hryðjuverk, skipulag glæpastarfsemi og alls konar mál sem heyrðu alls ekki undir hæstv. utanríkisráðherra. Þau heyrðu hins vegar undir hæstv. innanríkisráðherra.

Telur þingmaðurinn að þarna sé dæmi um að einn hæstv. ráðherra hafi gengið með mjög freklegum hætti inn á verksvið annars hæstv. ráðherra?