140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:20]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu. Ég tók eftir því að þingmaðurinn minntist á hvalveiðar og var að velta því fyrir sér undir hvaða flokk hvalveiðar mundu falla hér á landi og í löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Hann upplýsti það, eins og kannski margir vita, að hvalveiðar falla víðast hvar undir umhverfisráðuneyti.

Þar sem hvalveiðar eru um það bil að hefjast hér á landi langar mig til að spyrja hv. þm. Jón Gunnarsson hvar líklegt sé að ríkisstjórnin sjái hvalveiðum fyrir komið samkvæmt þessari nýju skipun í ráðuneytunum. Mundi stjórnarmeirihlutinn flokka hvalveiðar undir atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið þar sem þetta snýr að atvinnu eða undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið þar sem hvalir eru vissulega auðlind — eða falla hvalir undir umhverfismál? Þessu öllu á eftir að svara og er bara brot af því skipulagsleysi sem birtist í þingsályktunartillögunni. Málið er illa undirbúið og vanhugsað og ekki er gert ráð fyrir neinni framtíðarsýn.

Mér þætti vænt um að hv. þm. Jón Gunnarsson mundi tjá sig aðeins um það hvar hann teldi að þessar veiðar ættu heima samkvæmt nýju skipulagi.