140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins skuli sakna svo mjög hæstv. forsætisráðherra úr þessum sal. Ég leyfi mér að rifja stuttlega upp að fyrri umr. tók á tólfta klukkutíma. Hún var aðallega við málshefjanda, hæstv. forsætisráðherra, sem fór í andsvör, fékk andsvör frá mjög mörgum þingmönnum og tók mjög virkan þátt í umræðunni við fyrri umr. eins og vera ber. Þá var hæstv. forsætisráðherra líka hér megnið af gærdeginum og eins í dag. Enn eru margir á mælendaskrá og við sem hér erum viljum gjarnan hlýða á mál þeirra þannig að ég hvet hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur til að færa sig neðar á mælendaskrá svo sem eins og um eitt þrep þannig að við megum halda áfram að hlýða á þær áhugaverðu umræður sem hér fara fram um málið.