140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:04]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að ég átti ekki sæti á þingi fyrr en árið 2009 í apríl og hef setið hér í þrjú ár. Ég get því ekki sagt til um það af eigin reynslu hvernig málum var fyrir komið í þinginu fyrir þann tíma, en ég geri svo sem ráð fyrir því að ýmislegt athugavert hafi verið við vinnubrögðin þá.

Við tókum þá umræðu hvað mætti laga, í umræðunni um rannsóknarskýrsluna og eftir ábendingar þingmannanefndarinnar. Ég held að fyrir okkur sé ekkert annað að gera en að horfa á stöðuna eins og hún er í dag og reyna að bæta eigin vinnubrögð. Það að keyra mál í flýti gegnum Alþingi án þess að nægar upplýsingar liggi fyrir til að þingmenn geti myndað sér afstöðu og í raun er ekki vitað til hvers málið mun leiða, eins og tilfellið er með þessa tillögu, eru auðvitað ekki góð vinnubrögð. Að mínu mati er þetta ekki í samræmi við það sem ég gerði ráð fyrir að mundi verða niðurstaðan, eftir þau (Forseti hringir.) þrjú ár sem ég hef setið á þingi.