140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:06]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt að við þær breytingar á Stjórnarráðinu sem voru keyrðar í gegn af fyrrverandi ríkisstjórn, þ.e. ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, voru vinnubrögðin einmitt alveg hörmuleg (Gripið fram í.) og voru harðlega gagnrýnd, m.a. af þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og þeim sem hér stendur. Þess vegna finnst mér svo dapurt að horfa upp á það nú að vinnubrögð núverandi forsætisráðherra eru ekkert skárri, eins og hún hafi bara lært þetta í samstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á sínum tíma. Það er dapurt að við skulum aftur þurfa að standa frammi fyrir slíkum vinnubrögðum.

Það er alveg sjálfsagt að skoða og breyta stjórnskipan og ráðuneytaskipan, en vinnubrögðin eiga að taka einhverjum framförum, ekki sitja gjörsamlega föst í því fari sem við stóðum í með vinnubrögðum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem við gagnrýndum mjög harðlega. (Forseti hringir.)