140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:09]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Geri ég þá einfaldlega of miklar kröfur? Er það svo að ef vinnubrögð hjá einum hafi fengið einkunnina þrjá, síðan fær einhver annar einkunnina fjóra, má ég þá ekki krefjast þess að fá að sjá vinnubrögð sem fá einkunnina níu? Af hverju (Gripið fram í.) má maður ekki reyna að fara lengra?

Mér finnst ég hafa verið sanngjörn í málflutningi mínum. Mér finnst ekki í lagi að leggja fram mál sem segir manni í raun ekki hver stefnan á að vera. Það birtist okkur í nefndaráliti bæði meiri og minni hluta. Eins og ég sagði í ræðu minni þá birtist það í nefndaráliti meiri hlutans, en þar segir á bls. 4, með leyfi forseta:

„Fram kom á fundi nefndarinnar að áætlaður kostnaður vegna þessara tillagna á frumstigi geti numið á bilinu 125–225 millj. kr. Um er að ræða einskiptiskostnað …“

Hver kostnaðurinn verður fer eftir því hvaða leið verður valin. Þannig að það er ekki ljóst hvaða leið verður valin. Það er meðal annars þetta atriði sem mér finnst ekki vera fullnægjandi. (Forseti hringir.) Við vitum ekki hvað við erum að samþykkja hér.