140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:16]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst það kannski ekki undarlegt verklag að fá fyrst fram hina stóru ákvörðun um að breyta þessu, og það á að taka gildi 1. september, síðan kæmu þær breytingar sem varða stofnanirnar á eftir. Sá háttur hefur fyrr verið hafður á. Kannski mætti gera þetta öðruvísi. Og þó að ræðumenn hafi eytt miklum tíma í að tala um þetta hafa þeir nú rætt um allt mögulegt í þessari umræðu til að lengja mál sitt sem mest þeir geta.

Aðalástæða mín fyrir að koma hérna upp var hins vegar sú að hv. þingmaður minntist á tillögur þingmannanefndarinnar. Ég vildi bara segja henni að einmitt þessi skipting, hvað þingið ætti að gera og hvað framkvæmdarvaldið ætti að gera og slíkt, verður tekin meðferðar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á nefndadögum í næstu viku.