140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:16]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að koma í andsvar og ræða þetta mál við mig. Mig langar ekkert að vera í einhverjum hártogunum um einstakar stofnanir eða eitthvað slíkt, það var ekki efni ræðu minnar, heldur finnst mér þetta verklag einfaldlega gamaldags. Ég bjóst við meiru og ég vona að það hafi komist til skila. Ég ætla ekki að láta drepa bjartsýni mína um að við getum gert betur. Við getum gert betur. Ég vona að allir séu sammála um það. Við getum gert betur.

Mig langar að þakka hv. þingmanni og formanni nefndarinnar fyrir að upplýsa þingheim um að þingsályktunartillagan sem þingmannanefndin lagði fram verði til meðferðar í nefndinni í næstu viku. Það er gott, en auðvitað er rosalega langt síðan sú tillaga var samþykkt í þinginu og það veldur væntanlega okkur öllum svolitlum vonbrigðum — nú er ég ekki að ásaka hv. þingmann og formann nefndarinnar um að hafa dregið lappirnar í þeim (Forseti hringir.) efnum, alls ekki — að okkur hafi ekki tekist betur að halda utan um úrlausn þess verkefnis. [Kliður í þingsal.]

(Forseti (ÞBack): Forseti biður hv. þingmenn sem sitja hér í hliðarsal að hafa hljótt um sig.)