140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:18]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér er til síðari umræðu þingsályktunartillaga frá hæstv. ríkisstjórn um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Mönnum telst til að þetta séu sjöttu breytingarnar á skipan mála í Stjórnarráðinu frá því að núverandi ríkisstjórn tók til starfa. Það vekur athygli að þessar breytingar eiga að taka gildi í haust, nokkrum mánuðum fyrir kosningar. Það er eitt af því sem hefur verið mjög gagnrýnt varðandi þessa tillögu. Sú gagnrýni hefur ekki bara komið frá stjórnarandstöðunni, þó svo stjórnarandstaðan hafi haldið þeirri gagnrýni á lofti — nei, háværasta gagnrýnin hefur komið frá stjórnarliðinu sjálfu.

Þar sem hæstv. forsætisráðherra er í salnum ætla ég að nota tækifærið í þessari ræðu minni til að leggja fyrir hana nokkrar spurningar.

Ég vil t.d. spyrja hæstv. forsætisráðherra: Af hverju er farið með þetta mál í slíkum forgangi eins og raun ber vitni?

Nú í dag urðum við vitni að því að þingflokksformenn stjórnarflokkanna, ég leyfi mér að fullyrða eftir samráð við hæstv. forsætisráðherra, féllust ekki á tillögu okkar þingflokksformanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um að breyta dagskránni. Hér hefur það verið gagnrýnt að stjórnarandstaða haldi uppi málþófi. Ég reyndar er ekki sammála því, ég tel að þetta sé stórmál sem við þurfum að ræða. Ég get sagt fyrir sjálfa mig að þetta er fyrsta ræðan sem ég held í þessari umræðu. Ég var fjarverandi vegna annarra starfa þegar fyrri umræðan um þetta mál fór fram þannig að þetta er í fyrsta sinn sem ég tjái mig um þessa ágætu þingsályktunartillögu. Ég get því tekið undir með hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni þegar hann talar um stysta málþóf í sögunni.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Af hverju er þetta mál í slíkum forgangi að öllum öðrum málum er rutt til hliðar til að koma þessu frá sem fyrst?

Nú ætla ég að rifja upp þá tillögu sem við lögðum fram í dag. Á dagskrá þingsins í dag eru 16 mál, við erum á 4. dagskrárlið. 16. málið á dagskránni er tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna stjórnarskrárinnar, tillögur stjórnlagaráðs, sem er líka ágreiningsmál. Við lögðum til að við tækjum fyrir málin þar á milli sem eru flest að fara til nefnda og eitt mál fer til 2. umr. Þetta eru misgóð mál, ekkert endilega mál sem ég mundi leggja áherslu á að klára á þessu þingi, en miðað við það að málin eru komin á dagskrá eru þau greinilega á áherslusviði hæstv. forsætisráðherra. Við lögðum þetta til vegna þess hversu mikil umræða á eftir að fara fram um þetta mál. Ég get fullyrt að menn eiga eftir að þurfa að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í þessu máli, um það er bullandi ágreiningur innan stjórnarflokkanna sem utan. Ég skil ekki hvers vegna stjórnarflokkarnir með verkstjórann á kantinum, væntanlega samþykkan því, notuðu ekki tækifærið til að koma 16 málum að. Við féllumst ekki bara á að klára þau mál sem eru á dagskrá heldur að taka önnur mál og veita afbrigði fyrir þeim málum sem ljóst var að áhugi var á að koma til nefnda. Við erum með nefndadaga mánudag, þriðjudag og miðvikudag í næstu viku. Það er ljóst að sumar nefndirnar verða verkefnalausar.

Frú forseti. Nú beini ég spurningum mínum til hæstv. forsætisráðherra: Af hverju liggur svo á að klára þetta að öllum öðrum málum, stórum sem smáum, er rutt frá?

Í fyrri umræðu um þetta mál kom fram mjög hörð gagnrýni frá samflokksmanni hæstv. forsætisráðherra, hv. þm. Árna Páli Árnasyni, fyrrverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Ég blæs á það sem mér hefur fundist liggja dálítið í orðum hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, að sú gagnrýni sem hefur komið frá fyrrverandi hæstv. ráðherrum í ríkisstjórninni á þetta mál sé einungis til komin vegna þess að þeir séu súrir yfir því að hafa misst ráðherrastólinn. Ég held að það sé ekki þannig. Ég held að það sé miklu frekar þannig að þeir hafi ákveðna innsýn í verklag hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnar hennar og séu því bærari til að gagnrýna. Mér þykir gagnrýni þeirra málefnaleg.

Fram kemur í ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar að hann staðfestir að þetta mál — hans gagnrýni beinist fyrst og síðast að stofnun nýs fjármála- og efnahagsráðuneytis og færslu efnahagsmála yfir til fjármálaráðuneytisins — hafi aldrei verið rætt í ríkisstjórn í hans tíð. Ef við rifjum það upp lauk ríkisstjórnartíð hans um áramótin. Þetta frumvarp kemur fram á síðasta degi, 30. mars, þannig að á tímabilinu frá 1. janúar til 30. mars kemur þessi hugmynd fyrst fram og er sett í framkvæmd, væntanlega rædd í ríkisstjórninni. Það væri fróðlegt að fá fundargerðir ríkisstjórnarinnar og athuga hvort sérstaklega hafi verið haldinn fundur um þetta mikilvæga málefni, fínt að fletta því upp.

Spurningin er þessi: Hvað gerðist eftir 1. janúar 2012 sem varð til þess að þremur mánuðum seinna var orðið lífsnauðsynlegt að leggja fram þingsályktunartillögu sem ekki bara kúvendir þessu öllu saman heldur brýtur gegn sjálfum stjórnarsáttmálanum sem hæstv. forsætisráðherra þreytist ekki á að nefna í ræðustól?

Síðan upplýsir hv. þm. Árni Páll Árnason einnig að það hafði heldur aldrei verið rætt í þingflokki Samfylkingarinnar að leggja málin upp með þessum hætti og að sú tillaga sem við ræðum hafi ekki fengið efnislega umræðu, hún hafi verið lögð fram í þingflokki Samfylkingarinnar fullbúin, komið þangað tilbúin. Hann fullyrðir að engin umræða hafi farið fram um þessa tillögu, hvorki í þingflokknum né í Samfylkingunni. Það eru stór orð að engin umræða hafi farið fram á vettvangi flokksins um að breyta frá stefnumörkuninni sem fólst í stjórnarsáttmálanum.

Ég hlýt að spyrja hæstv. forsætisráðherra um þetta fyrst hún hefur sýnt okkur þá virðingu að koma hingað að okkar beiðni og ég þakka fyrir það. Ég hlýt að því að biðja um svör við þessum spurningum.

Hv. þm. Árni Páll Árnason talar líka um að með þessari tillögu, þá vísa ég í það sem ég sagði áðan, gagnrýni hans á stofnun nýs fjármála- og efnahagsráðuneytis, séum við ekki að draga neinn lærdóm af hruninu. Það er mikið vísað í bætt vinnubrögð og skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, en þetta gengur allt þvert gegn því. Ég óska eftir að hæstv. forsætisráðherra útskýri það líka fyrir mér.

Fjölmörg atriði sem hafa komið hér fram hafa verið afbökuð, vil ég leyfa mér að segja, af hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, framsögumanni þessa máls, sem þreytist ekki á að segja hversu vel þetta mál er undirbúið og hversu mikla vinnu það hefur fengið. Hún talar um 15 fundi nefndar með hagsmunaaðilum af öllu tagi, en allir þessir 15 fundir með öllum þessum hagsmunaaðilum voru aldrei um stofnun nýs fjármála- og efnahagsráðuneytis. Það var aldrei til umræðu þar vegna þess að þá átti að fara allt aðra leið. Síðan á þetta ekki að vera til hagræðingar. Seinasta breyting átti að vera til mikillar hagræðingar, sú röksemd lá þar að baki. Nú er það ekki þannig. Nú er þetta gert til að allt verði miklu skemmtilegra og miklu betra, til að stjórnsýslan verði skarpari.

Þetta minnir mig óneitanlega á R-listann og samstarf Besta flokksins og Samfylkingarinnar núna í Ráðhúsinu. Hvað er að gerast þar? Jú, það eru þrjú ár liðin frá kosningum og eina afrekið, það eina sem Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn Reykjavíkur, getur hrósað sér af, fyrir utan að setja held ég öll skólafélög og foreldrafélög á höfuðborgarsvæðinu í mikið uppnám, er að gera skipulagsbreytingar í Ráðhúsinu. Þetta er alveg eins og á dögum R-listans. Það klikkaði ekki að á hverju ári kom fram nýtt skipulag á starfsemi Ráðhússins. (Gripið fram í: Stjórnsýslunni.) Núna er það sama í gangi — sjötta málið frá því að þessi ríkisstjórn tók við.

Ég ætla að leyfa mér að vitna í ýmsa sérfræðinga, því að við í stjórnarandstöðunni erum alltaf vænd um að vera svo neikvæð, en hæstv. forsætisráðherra þreytist ekki á að tala um að hún hlusti á rök sérfræðinga og faglegt mat. Sérfræðingar, svo sem stjórnsýslufræðingurinn Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, hafa miklar áhyggjur af því eins og fram hefur komið í fjölmiðlum að svo tíðar breytingar á stjórnsýslunni hafi mjög mikil áhrif á stöðugleika í stjórnsýslunni. Hvað var það sem var gagnrýnt í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eftir hrun? Var það ekki að stjórnsýsluna skorti formfestu, hún væri ekki nógu skipulögð? Hvaða áhrif heldur hæstv. forsætisráðherra að síendurteknar breytingar og hringlandaháttur í stjórnsýslu hafi þegar fólk veit ekki frá ári til árs hjá hvaða ráðuneyti það vinnur vegna þess að sífellt er verið að hringla með það?

Ég leyfi mér að gagnrýna þær breytingar sem verið er að gera nokkrum mánuðum fyrir kosningar. Það er annað í upphafi kjörtímabils þegar ríkisstjórn er að taka við að hún vilji setja sitt mark og sína stefnu og haga hlutum með þeim hætti sem hún kýs. Það er sjálfsagt. Við erum í pólitík. Við höfum ólíkar skoðanir. Við erum með ólíka sýn á það hvernig við ætlum að framkvæma hlutina. En það er óeðlilegt að nokkrum mánuðum fyrir kosningar komi kollsteypa eins og þessi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneyti og atvinnuvegaráðuneyti gagnrýni ég með öðrum hætti en efnahags- og fjármálaráðuneyti. Þrátt fyrir að ég sé ekki sammála hæstv. forsætisráðherra um þessi tvö ráðuneyti, sem ég nefndi fyrst, liggur fyrir að þetta var ætlun hæstv. ríkisstjórnar allan tímann og færð hafa verið fyrir því margvísleg rök. Kostir þess og gallar hafa verið ræddir og eins og ég segi þarf ég ekki að vera sammála. En hin nýja kúvending varðandi efnahagsmálin sem eru akkúrat aðalatriðið í dag — ég veit ekki hvort hæstv. forsætisráðherra gerir sér grein fyrir því að það eina sem þetta snýst um er að hafa efnahagsmálin í lagi.

Fyrst sýndi hæstv. forsætisráðherra málaflokknum þá vanvirðingu að færa efnahagsmálin út úr forsætisráðuneytinu, fannst þau ekki eiga heima þar, að verkstjórinn þyrfti ekkert að hafa yfirsýn yfir þau. Því er ég ósammála. Ég tel að forsætisráðherra eigi einmitt að hafa góða yfirsýn yfir efnahagsmálin. Síðan var efnahags- og viðskiptaráðuneytinu komið á koppinn. Það mátti gagnrýna það, en því var komið á laggirnar. Það kostaði um 25 milljónir. Það eru væntanlega peningar sem við erum búin að henda út um gluggann vegna þess að hér er ekki hagræðingaraðgerð á ferð. Kostnaðurinn sem nefndur er til sögunnar er bara vegna húsnæðisbreytinga. Ég leyfi mér að efast um það. Í fyrsta lagi held ég að sá kostnaður geti verið stórlega vanmetinn og í öðru lagi er óhjákvæmilegt að svona breytingum fylgi rask í mannahaldi sem hefur í för með sér kostnaðarsamar biðlaunagreiðslur og annað. Plús það sem nefnt er og tekinn af allur vafi í nefndaráliti meiri hluta hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ef ráðuneytin verða svo eftir allt saman of stór.

Fyrst voru ráðuneytin of lítil þannig að þá þurfti að sameina þau og stækka, nú verða þau svo stór að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vill hafa þann möguleika fyrir hendi að það gæti komið til þess að ráðherrann missti yfirsýnina — ég leyfi mér að fullyrða að það mun gerast — þá er vinstri stjórnin með lausnina á því: Þá fjölgum við ráðherrum en köllum þá bara aðstoðarráðherra sem hafa ákveðna málaflokka innan ráðuneytisins á sinni könnu. En bíðið, hvar á það fólk að vera? Það fólk hlýtur að vera á launum. Það fólk hlýtur að vera með aðstoðarmenn og eigið starfsfólk.

Þá er spurningin sem ég spurði einmitt við umræðu um breytingar á Stjórnarráðinu á septemberþinginu fyrir nokkrum mánuðum síðan. Eiga þessir ráðherrar, þegar verið er að fjölga þeim innan ráðuneytanna, að vera kjörnir eða eiga þeir að vera skipaðir? Bera þeir pólitíska ábyrgð eða verða þeir faglegir og bera enga pólitíska ábyrgð?

Frú forseti. Ég tel að þetta sé allt saman gert með öfugum formerkjum. Hér er verið að leggja til samþykkt á tillögu sem gerir ekkert annað en setja ramma utan um óútskýrða og óútfyllta mynd. Það á eftir að skipa samráðshópa og meta kostnað og gera alla þá hluti sem á að byrja á þegar farið er í svona breytingar. Maður á að byrja á því að átta sig á hvaða áhrif breytingarnar hafa, hvað breytingarnar kosta og hvernig við framkvæmum þær og — ég geymdi það þar til síðast — jafnvel hvernig hægt sé að leita sátta um breytingarnar. Það væri kannski betri bragur að því.

Frú forseti. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er ekkert að leita að sátt. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur passar sig á því að taka alla þá slagi sem hún mögulega getur fundið og víkur úr vegi þegar leitað er eftir samkomulagi, málamiðlun. Ég tel miður að við skulum vera í þeirri stöðu í þinginu að hæstv. forsætisráðherra skyldi ekki sýna það sem ég hefði haldið að hún hefði tækifæri til að sýna í dag, þ.e. stærð sína með því að fallast á að leggja einu sinni ágreining til hliðar, þó ekki væri nema bara um stund, til að greiða fyrir þingstörfum vegna þess að sú tillaga sem lögð var fram af þeirri sem hér stendur og varaformanni þingflokks Framsóknarflokksins var sett fram í einlægni. Hún var virkilega sett fram vegna þess að ég var miður mín eftir umræður í morgun. Mér fannst Alþingi Íslendinga ekki vera sómi sýndur með þeirri umræðu sem fór hér fram, þá er ég ekkert að undanskilja okkur sjálfstæðismenn í þeim efnum. Það var með það að leiðarljósi sem við fórum þess á leit (Forseti hringir.) að við gætum komið hér málum áfram. Nei, hæstv. forsætisráðherra kaus ófriðinn.