140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:46]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ósanngjörn málsmeðferð, segir hæstv. forsætisráðherra. Er það ósanngirni að bjóðast til að taka mál fram fyrir þetta mál og leggja þennan ágreining til hliðar um stund til að þingið geti verið starfhæft? Hæstv. forsætisráðherra kvartar yfir seinagangi og að mál sem meirihlutastjórn í landinu berst fyrir komist ekki að. Ég leyfi mér að leiðrétta hæstv. forsætisráðherra. Liggur fyrir að það sé meirihlutastjórn í landinu? (Gripið fram í.) Í hverju málinu á eftir öðru er hæstv. ríkisstjórn að semja við einhvern í stjórnarandstöðunni til að pota málum fram. Og það er ekki þannig, hæstv. forsætisráðherra, að seinagangurinn í þinginu stafi af verkum stjórnarandstöðunnar. Ég veit ekki til þess að samningaviðræður við okkur í stjórnarandstöðunni taki nándar nærri jafnlangan tíma og samningaviðræður milli ríkisstjórnarflokkanna og innan ríkisstjórnarflokkanna um einstök mál.

Það er barnaskapur af hæstv. forsætisráðherra að kvarta yfir því að mál af þessari stærð, sem hefur ekki einu sinni fengið að fara til umsagnar á milli umræðna, sé rætt í 20 klukkustundir. Þetta segir hæstv. forsætisráðherra sem er methafinn í ræðuflutningi á hinu háa Alþingi, ég held að ein ræða hæstv. forsætisráðherra sé helmingurinn af þeim tíma sem hún býsnast yfir núna, tíu klukkustundir. (Gripið fram í: Ellefu.) Ellefu klukkustundir, er kallað hér fram í.

Ósanngirni, nei, frú forseti, (Forseti hringir.) ég held að hæstv. forsætisráðherra ætti að líta í eigin barm eins og hún hvatti til hér. (Forseti hringir.) Ósanngirnina er einungis að finna hjá henni. Ég sakna þess að (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra hafi ekki í andsvörum svarað einni einustu spurningu sem ég (Forseti hringir.) varpaði hér fram efnislega um málið og vænti þess að hún geri það síðar í umræðunni.