140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:51]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að ég hafði vænst meira af andsvari við hæstv. forsætisráðherra um þetta mál vegna þess að ég lagði fram margar spurningar í ræðu minni, meðal annars spurningar sem sneru að gagnrýni fyrrverandi hæstv. ráðherra Samfylkingarinnar, núverandi hv. þm. Árna Páls Árnasonar, helst um tilurð þessa efnahags- og fjármálaráðuneytis. Hæstv. forsætisráðherra gerði það ekki heldur kaus hún að koma hér og kvarta yfir stjórnarandstöðunni. Mér finnst það ómaklegt.

Svör hæstv. forsætisráðherra í dag voru þau að skilyrði væri að semja um lok þessarar umræðu. Ég get alveg staðfest að hvorki ég né varaformaður þingflokks Framsóknarflokksins vorum tilbúin þess að gera það. En við höfðum frumkvæði að því þingflokksformenn yrðu kallaðir saman og það var einlægur vilji okkar að leggja ágreining til hliðar, þess vegna fórum við af stað því að mér misbauð umræðan við atkvæðagreiðslu um lengd þingfundar í morgun. Mér þóttu þau orðaskipti vond sem þar áttu sér stað. Ég vildi gera mitt og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson vildi gera sitt til þess að við gætum lagt ágreininginn til hliðar og sýnt þjóðinni sem fylgist með störfum Alþingis að við getum stundum lagt ágreining til hliðar, kælt okkur aðeins niður, gengið í málin og klárað þau til þess að við getum tekið til hendinni á nefndadögum í næstu viku.