140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:55]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vakti líka athygli mína í þessum umræðum í dag að hæstv. forsætisráðherra sem gagnrýndi að ég héldi að ég hefði dagskrárvaldið á þinginu, tók sér sjálf dagskrárvaldið á þinginu í dag og byrjaði að hóta því að við yrðum hér fram á sumar líkt og hún væri sú sem hefði forræði yfir starfsáætlun þingsins. (VigH: Hárrétt.) Nú er það bara ekki þannig. Forseti þingsins fer með dagskrárvaldið á þinginu, (Gripið fram í.) forsætisnefnd samþykkir starfsáætlun.

Ég verð að hrósa hæstv. forseta Alþingis fyrir að reyna hvað hún getur til þess að halda starfsáætlun þingsins. En ég skil vel að það geti stundum verið erfitt vegna þess að það kom í ljós í dag hvað hæstv. forsætisráðherra er tilbúin að ganga langt í að reyna að setja mark sitt á þá starfsáætlun sem við förum eftir. Mér finnst það ógeðfellt, sérstaklega í ljósi þess að þegar hæstv. forsætisráðherra var hv. þingmaður í stjórnarandstöðu hélt hún margar ræður um nauðsyn þess að Alþingi væri styrkt, að sjálfstæði Alþingis tryggt, að það yrði ekki afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið. Nú stendur handhafi framkvæmdarvaldsins og hótar Alþingi sumarþingi. Mér finnst ekki góður bragur á því.

Ég verð að taka undir með hv. þm. Ólöfu Nordal varðandi þá tillögu sem við gerðum til þess að reyna að höggva á þennan hnút, það er skynsemi í þeirri tillögu eða það var skynsemi. Hún er nú fokin út í veður og vind og tillögunni var ekki tekið eins og við vitum.

Það er auðvitað skynsemi í því að koma málum áfram til þess að hægt sé að nýta nefndadagana, en hæstv. forsætisráðherra vill heldur fara þetta á hnjánum.