140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:57]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þessi dagur, hvernig hann hófst í morgun og hvernig hann hefur þróast í dag, veldur mér mjög miklum áhyggjum um það hvernig næstu vikur verða hér í þinginu, þannig að það sé bara sagt hreint út. Það veldur mér verulega miklum áhyggjum ef við erum komin í gríðarlegan ágreining á þessum tímapunkti. Það er 3. maí í dag, enn þá eru nokkrar vikur eftir af því skipulagi sem þingið lagði upp með fyrir þennan þingvetur. Verið er að tala um sumarþing, ég gef ekkert fyrir það á þessum tímapunkti. Aðalatriðið er að það ástand sem hér er að skapast er að gera þingið algjörlega óstarfhæft.

Hér kom fram tillaga um að menn ýttu ágreiningsmálunum til hliðar um stund og tækju á dagskrá mál sem hægt er að koma til nefndar. Því var hafnað og ég held, virðulegi forseti, að við verðum öll að líta til þess sem sitjum í þessum sal að það er ekki hægt að halda svona áfram með þingstörfin, það er bara ekki hægt. Menn verða að reyna að vera ekki bara með ágreiningsmál á dagskrá heldur líka mál (Forseti hringir.) sem hægt er að koma með sæmilegum friði til nefnda.