140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:21]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans áðan. Þingmaðurinn situr í fjárlaganefnd og ég er þar varamaður fyrir hönd Framsóknarflokksins og við höfum því setið nokkra fundi saman þar sem farið hefur verið yfir sparnaðartillögur ríkisstjórnarinnar. Benti þingmaðurinn réttilega á að ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir því að skera niður á röngum stöðum til dæmis, eins og hv. þingmaður fór yfir, í heilsugæslu úti á landi.

Nú ætla ég að fara með nokkrar tölulegar staðreyndir svo þingmenn átti sig á í hvað ríkisstjórnin er raunverulega að eyða skattfé okkar landsmanna. Ég sendi fyrirspurn á forsætisráðuneytið þar sem ég óskaði eftir að fá upplýsingar um hvaða nefndir, ráð og verkefnisstjórnir ríkisstjórnin hefði stofnað frá því að hún tók við, þessi verklausa vinstri stjórn, frá kosningum. Það er skemmst frá því að segja að ríkisstjórnin hefur alls ekki verið verklaus í því að stofna nefndir og ráð og að úthýsa verkefnum. Forsætisráðuneytið vísaði að vísu fyrirspurninni frá sér og benti mér á að spyrja öll ráðuneyti og nú hef ég tekið þetta saman því að nú hafa borist svör frá öllum ráðuneytum.

Ríkisstjórnin hefur stofnað 318 nefndir, ráð, verkefnisstjórnir og starfshópa síðan hún var kosin á vordögum 2009 og hefur greitt úr ríkissjóði í þóknanir fyrir þetta tæpar 600 milljónir. Síðasti kostnaður við sameiningu ráðuneyta var 250 milljónir og verið er að boða að breytingin sem nú liggur fyrir kosti 250 milljónir. Stjórnlagaráð er komið yfir milljarð nú þegar og boðuð er þjóðaratkvæðagreiðsla í október sem kostar 250 milljónir. Ríkisstjórnin hefur því eytt í þessi gæluverkefni síðan hún tók við eftir kosningarnar tæpum 2,5 milljörðum. Finnst hv. þingmanni, sem situr í fjárlaganefnd, forsvaranlegt hvernig núverandi ríkisstjórn fer með skattfé landsmanna?