140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:53]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get fallist á það með hv. þingmanni að þótt maður sé andsnúinn atvinnuvegaráðuneyti þá er það mál talsvert öðruvísi vaxið en þetta, sá þáttur málsins snýr að efnahagsmálum.

Ég er sammála hv. þm. Árna Páli Árnasyni um að það er ekkert vit í því að hafa þetta inni í tillögunni eins og er. Það þarf að bíða eftir þeim athugunum sem nú eru í gangi og það þarf líka að skýra betur hvers vegna þessi tillaga lítur út eins og hún gerir. Þau svör sem kallað var eftir hafa því miður ekki enn fengist í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það er ekki svo lítið mál að ákveða að hluti af fjármálamarkaðnum fari undir atvinnuvegaráðuneyti. Það er ekki svo lítil ákvörðun.

Mér finnst líka óþolandi og út í hött að við séum að þeytast of mikið með þessi verkefni fram og til baka. Ég hefði kosið að menn mundu bíða með þetta og leyfðu þessari umræðu að gerjast aðeins.

Á örfáum dögum er ég búin að vera að lesa mig til um þessar hugmyndir og hvernig best er að koma efnahagsmálum fyrir til lengri tíma. Það er ósköp eðlilegt að þingmenn fái tækifæri til að hugleiða það. Ég segi það fyrir mig að ég vil gjarnan fá tíma til að hugsa það til enda en ekki í þeim loftköstum sem hér er boðið upp á. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að menn fái andrúm til að gera það. Því miður sé ég ekki að neinn vilji sé til þess af hálfu stjórnarflokkanna. Ég er samt ekki enn búin að missa von, virðulegi forseti, og horfi nú á formann þingflokks Vinstri grænna — ég er ekki enn búin að missa von á því að þingmenn stjórnarmeirihlutans sjái kosti þess að þingmenn fái tíma til að hugleiða málið af einhverri yfirvegun í stað þess að þeyta því í gegnum þingið eins og hér er gert.